140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á Ólympíuleikunum.

283. mál
[19:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að þessir samningar eru lausir. Við höfum raunar verið að undirbúa endurnýjun þeirra og höfum verið að ræða það við íþróttahreyfinguna hvernig nýjum samningum verður best fyrir komið þannig að því sé til haga haldið. Sú vinna er í fullum gangi í ráðuneytinu hvað varðar ferðasjóðinn, afrekssjóðinn, framlög til ÍSÍ og sérsambandanna og slysabótasjóðurinn heyrir undir velferðarráðuneytið.

Ég get að sjálfsögðu tekið undir með hv. þingmanni að þetta eru mikilvægir fulltrúar, ekki aðeins út á við heldur er afreksfólkið okkar líka mjög mikilvægar fyrirmyndir fyrir börn og ungmenni. Ef við viljum horfa til þess hvað hvetur börn og ungmenni áfram í íþróttastarfi, sem allir geta verið sammála um í þessum sal að hefur gríðarlegt forvarnagildi og hefur líka gríðarlegt gildi fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig, þá skiptir afreksfólkið máli. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Þess má sjá stað í nýsamþykktri íþróttastefnu sem unnin var í nánu samráði við þann geira að það skiptir máli ekki aðeins að horfa á barna- og ungmennastarf eins og við höfum oft rætt í þessum sal, heldur líka afreksfólkið af því að það er fyrirmyndir.

Hv. þingmaður spyr hvort búið hafi verið nægilega vel að afreksfólki. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin eins og ég sagði áðan þá held ég að það sé ekki sambærilegt, íslenska ríkið styrkir ekki afreksfólk sitt með sama hætti og til að mynda önnur Norðurlönd svo ég segi það. Ég held líka að við verðum að átta okkur á því að ekki aðeins hefur íþróttahreyfingin mátt sæta niðurskurði eins og auðvitað öll opinber framlög, heldur hefur hún líka misst að verulegu leyti framlög einkaaðila. Sú efnahagskreppa sem við höfum átt í hefur því kannski bitnað með tvöföldum hætti á þessari hreyfingu. Þar hafa öflugir einkaaðilar sem hafa kannski sérstaklega styrkt þátttöku á stórmótum og annað slíkt að einhverju leyti dregið sig til baka. Það hefur því verið verulega erfið staða hjá mörgu afreksfólki okkar undanfarin ár.