140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

afrekssjóður Íþróttasambands Íslands.

284. mál
[19:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina. Hann spyr um hlutverk afrekssjóðsins og hver sé stefnan varðandi hann. Eins og kunnugt er hefur sjóðurinn fyrst og fremst það hlutverk að veita styrki til fremstu íþróttamanna þjóðarinnar í því skyni að efla árangur íslensks afreksfólks á alþjóðavettvangi. Ef við lítum á söguna náðist á árunum 2002–2006 að efla sjóðinn og auka hann úr 10 millj. kr. árið 2002 í 25 millj. kr. árið 2003, sem hækkaði síðan í 30 millj. kr. árið 2006 og stóð til að hækka enn frekar.

Síðan hefur sjóðurinn verið skorinn niður í takt við aðra liði og var gert ráð fyrir 24,7 millj. kr. framlagi í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ég vil því leiðrétta hv. þingmann og segja að á fjárlögum fyrir árið 2012 var samþykkt tillaga mín um 10 millj. kr. hækkun á sjóðnum í 34,7 millj. kr. þannig að framlög til hans hækkuðu um 40% við afgreiðslu þessara fjárlaga þótt það sé að sjálfsögðu ekki verðlagsuppfært.

Mér finnst það því ríma við þá stefnumótun sem ég nefndi áðan, þ.e. íþróttastefnuna sem lögð hefur verið fram. Það liggur fyrir að þar eru ýmis verkefni, sum kostnaðarsöm, en þar er sérstaklega rætt um afreksíþróttastarfið. Ég lít á hækkunina á fjárlögum sem fyrsta skrefið í því hvernig við getum eflt framlög ríkisins annars vegar til afrekssjóðsins og hins vegar til sérsambandanna því að það skiptir auðvitað máli og það er hlutverk þeirra að halda úti landsliðum og alþjóðastarfi. Þarna þurfum við að horfa á hlutina í samhengi, annars vegar afrekssjóðinn og hins vegar framlög til sérsambandanna.

Hv. þingmaður spyr um eflinguna og ég segi að þegar er búið að stíga fyrstu skrefin í því efni. Ég held að það skipti miklu máli að við fylgjum þeirri stefnumótun sem unnin hefur verið í samráði við geirann, að við styrkjum þennan sjóð áfram.

Ég vil nefna það til að skýra heildarmyndina að auk framlags frá mennta- og menningarmálaráðuneyti koma tekjur afrekssjóðsins frá Íslenskri getspá, 8% af hlutdeild Íþróttasambands Íslands í lottóhagnaðinum sem hér hefur verið nefndur fer til sjóðsins og síðan er það framlag Alþjóðaólympíusamhjálparinnar, sem ég nefndi líka áðan, sem úthlutað er sérstaklega til sérsambanda vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleika. Svo við áttum okkur á þessari mynd er framlag ráðuneytisins um þriðjungur af úthlutun sjóðsins. Árið 2010 var úthlutað um 48 millj. kr. úr sjóðnum auk 16 millj. kr. framlags Alþjóðaólympíusamhjálparinnar og alls var úthlutað um 55 millj. kr. úr afrekssjóði á árinu 2011 auk þess sem framlag Alþjóðaólympíusamhjálparinnar var svipað og undanfarin ár.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög brýnt að sjóðurinn hafi burði til þess að styðja afreksíþróttafólk þjóðarinnar mun betur en nú er. Íslenskt íþróttafólk tekur þátt í flestum Evrópumótum, heimsmeistaramótum, Ólympíumótum og Norðurlandamótum í þeim greinum sem stundaðar eru hérlendis og það liggur fyrir að kostnaður er mikill. Iðulega fjármagnar afreksfólk þátttöku sína að einhverju leyti sjálft þannig að við þurfum að horfa til þess hvernig við getum eflt þennan sjóð.