140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

afrekssjóður Íþróttasambands Íslands.

284. mál
[19:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með ráðherra að það verður nálgast þetta heildstætt og það verður að nýta það svigrúm sem gefst með því að samningar eru lausir. Við verðum að horfa á þetta þannig að sérsamböndin hafi ákveðnu og mikilvægu hlutverki að gegna. Samningurinn við þau undirstrikar að þau þurfa að sinna ákveðnu hlutverki og það hefur orðið sífellt erfiðara með árunum því að sjálfboðaliðastarfið hefur minnkað á miðað við það sem áður var. Síðan er það auðvitað afrekssjóðurinn en ferðasjóðurinn er annað mál.

Ég held að það hljóti allir að sjá núna, ekki síst eftir gott gengi stelpnanna okkar í handbolta úti í Brasilíu og síðan gott gengi ýmissa annarra íþróttamanna eins og í sundi og badminton, að við þurfum að hlúa að þessu betur. Ég tel að þarna sé ákveðin forgangsröðun pólitískt séð. Það lá alveg fyrir að menn ætluðu að reyna að efla afrekssvið á sínum tíma en svo kom hrunið. Við sjáum að víða eru pólitískar áherslur og þá er hægt að efla ákveðna (Forseti hringir.) þætti eins og t.d. að fjölga listamönnum sem fá starfslaun, sem var gott. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að setja áherslupennann (Forseti hringir.) á það sem heitir afreksmál til lengri tíma á Íslandi. Áfram Ísland.