140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

285. mál
[19:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi umræðunnar áðan um þá staðreynd að Ísland þarf að búa við hærri ferðakostnað eðli málsins samkvæmt má benda á að ýmis íþróttafélög úti á landi glíma við sama vandamál.

Fyrir ekki svo löngu síðan var settur á laggirnar ferðasjóður íþróttafélaga í kjölfar þingsályktunartillögu þingmanns Framsóknarflokksins. Það er eitt stærsta hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar á landsvísu og sjóðurinn skiptir sköpum í rekstri smærri íþróttafélaga. Sjóður þessi er hugsaður til að dekka ferðakostnað allra aldursflokka vegna þátttöku í fyrir fram skilgreindum styrkhæfum mótum og hefur framlagið, þótt lágt sé, skipt afar miklu máli. Hann hefur lækkað framlag foreldra og aukið jafnræði þátttakenda um allt land til þátttöku í mótum innan lands.

Endurgreiðslur úr þessum sjóði taka aðeins til brota af heildarkostnaði íþróttafélaga, sem talinn var yfir 500 milljónir árið 2005 en hefur stóraukist síðan þá. Samningur þessi rann út árið 2008 og hefur ekki verið endurnýjaður. Hann er einn af þeim mikilvægu samningum sem ég sagði að þyrfti að endurnýja og gera gangskör í að verði kláraðir. Á árinu 2009 áttu að koma samkvæmt þeim samningi um 90 millj. kr. í ferðasjóðinn en 30 millj. kr. af þeim fjármunum var frestað ótímabundið. Ég kalla sérstaklega eftir því framlagi vegna þess að í rauninni er búið að gera ráð fyrir því að þetta mikilvæga framlag komi úr ríkissjóði. Á árinu 2009 námu greiðslur úr sjóðnum 59 millj. kr., örlítið minna árið 2011, en sem betur fer náðist að hækka fjárframlagið í 64 milljónir eftir mikla baráttu innan fjárlaganefndar. Því ber að fagna.

Virðulegi forseti. Þessi sjóður snertir barnafólk beint, sérstaklega það sem vill setja börnin sín í íþróttir. Ferðakostnaður er mikill fyrir það fólk sem vill senda börnin sín til keppni hér á höfuðborgarsvæðinu og það er mikill aðstöðumunur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað þetta varðar. Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hún vilji ekki beita sér í að efla sjóðinn og gera nýjan samning þar að lútandi.