140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

285. mál
[19:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég tek undir með henni að mikilvægt sé að tryggja grundvöll sjóðsins og tilvist hans. Það er kannski fyrsta skrefið og auðvitað þurfti að skera þar niður eins og annars staðar, því miður. Við verðum samt að horfa til þess að fjárframlög til íþróttamála hafa verið skorin gríðarlega mikið niður og umfram marga aðra málaflokka. Þessi sérstaki samningur hefur skipt sköpum, svo ég taki nú ekki sterkar til orða, varðandi íþróttaiðkun margra barna, sérstaklega úti á landi.

Fjárframlögin í sjóðinn eru ekki há að mínu mati og kannski langt undir því sem menn ætluðu þegar tillagan var sett fram á sínum tíma. Þó ber að þakka það sem er. Ég vil halda því til haga að það var fyrrverandi þingmaður, Hjálmar Árnason, sem fyrstur lagði fram þingsályktunartillögu um að sjóðurinn yrði stofnaður.

Ég hef kannski misskilið hæstv. menntamálaráðherra en samningurinn er runninn úr gildi. Já, það er sameiginlegur skilningur okkar. Þess vegna spyr ég og vil fá viðbrögð við því: Stendur til að taka samninginn upp? Það er gott að ræða um hvernig hann eigi að vera. Ég held reyndar að ekki þurfi að setja þetta mál í sérstaka nefnd, ég held að það þurfi bara að ráðast í gerð samningsins í ljósi þeirrar íþróttastefnu sem nú hefur verið lögð fram og stórefla hann í framtíðinni.