140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

285. mál
[19:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Bara svo það sé á hreinu er það liður í því sem við erum að vinna að núna í samskiptum okkar við ÍSÍ, að skoða alla þessa samninga og endurnýja þá, þ.e. afrekssjóðinn, ferðasjóðinn og svo samninginn sjálfan við ÍSÍ eins og ég nefndi áðan.

Hvað varðar niðurskurðinn er rétt að framlög til íþróttamála hafa tekið niðurskurði. Í þeim fyrstu fjárlögum sem lögð voru fram haustið 2009 var niðurskurður til menningar- og íþróttamála 10%, sem er verulegur niðurskurður, og þess mátti sjá stað í öllum sjóðum á þessu sviði. Árið eftir forgangsröðuðum við í raun í þágu íþróttamála og þau hlutu minni niðurskurð en til að mynda menningarmál. Við settum forgangsröðina þannig að það sem við töldum að sneri sérstaklega að börnum og ungmennum, og ég nefni sem dæmi framhaldsskóla og íþróttamál sem fengu minni niðurskurð eða 5%, og síðan var 2% niðurskurður í fjárlögum í ár. Auðvitað munar um það, ekki síst af því að sjóðirnir eru ekki verðlagsuppfærðir enda eru tilfærslur og eins og ég nefndi áðan hefur stuðningur einkaaðila við þennan geira dregist verulega saman og um hann hefur að sjálfsögðu verulega munað.