140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

viðræður við ESB um sjávarútvegsmál.

[13:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við þær breytingar sem urðu á ríkisstjórninni um áramótin kom það mjög skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra hversu mikil óánægja hefði verið í garð fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna þess hvernig hann hefði hagað viðræðunum við Evrópusambandið úr ráðuneyti sínu. Nú er kominn nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ráðherra sem lýsti því yfir þegar sótt var um aðild að rétt væri að hefja viðræðurnar á kaflanum um fiskveiðistjórnina og láta á það reyna hvort þar væri hægt að ná samkomulagi við Evrópusambandið. Ef það gengi ekki eftir gæti verið full ástæða til að stöðva viðræðurnar.

Ég inni hæstv. ráðherra eftir því hvaða breytingar hann sjái fyrir að verði á framkomu ráðuneytisins í tengslum við Evrópusambandsviðræðurnar, hvort hann telji möguleika á því að færa viðræðurnar yfir á svið fiskveiðistjórnarinnar þannig að látið verði reyna á þessi mikilvægu atriði fljótlega og þá fylgir að sjálfsögðu sú spurning hvort hann telji raunhæft að klára viðræðurnar fyrir næstu kosningar eða jafnvel á þessu ári.

En það er líka önnur spurning sem er mjög mikilvægt að verði svarað hér og hún er þessi: Telur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra koma til greina að hann ljúki viðræðum við Evrópusambandið um þennan kafla en styðji engu að síður ekki samninginn? Hér er sem sagt um að ræða þann sem fer með málaflokkinn í ríkisstjórninni og ber þannig ábyrgð á viðkomandi kafla í viðræðunum við Evrópusambandið. Telur sá sem fer fyrir kaflanum, ber ábyrgð á efnislegu innihaldi hans að ef samningar takast koma til álita að ljúka viðræðum en styðja engu að síður ekki samninginn í heild sinni?