140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

viðræður við ESB um sjávarútvegsmál.

[13:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki rétt eftir haft hjá hv. þingmanni að forsætisráðherra hafi í beinum tengslum við breytingar á ráðuneytum um áramót sérstaklega fjallað þar um viðhorf sín til einstakra starfa einstakra ráðherra. Hún kann að hafa gert það á vikunum þar á undan í ákveðnum tilvikum enda voru þetta breytingar sem lengi höfðu verið í undirbúningi eins og kunnugt er. Þær hafa að sjálfsögðu engin áhrif á stöðu viðræðna við Evrópusambandið enda veit ég ekki betur en að ég og forveri minn höfum nákvæmlega sömu grundvallarafstöðu til þess máls.

Ég mun eiga fundi á næstu dögum með formönnum viðræðunefnda bæði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og reyndar að einhverju leyti fleiri hópa sem tengjast sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, m.a. til að setja mig nákvæmlega inn í stöðuna og hvar þær viðræður eru á vegi staddar þó að ég þekki allvel til undirbúningsins. Það tengist meðal annars því sem hv. þingmaður nefndi, að ég hef verið áhugamaður um að sem fyrst væri hægt að láta reyna á þessa stóru og mikilvægu kafla þar sem grundvallarhagsmunir okkar eru undir. Um leið er að sjálfsögðu mikilvægt að vanda mjög undirbúninginn og samningsafstöðuna og standa þar fast á öllum okkar grundvallarhagsmunum eins og við höfum skýra leiðsögn um frá Alþingi og var útlistað í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Það stendur ekki til að gefa þar eftir, hvorki í því máli né þeirri deilu sem yfir stendur um stjórn veiða á makríl. Ég hvet hv. þingmann, ef hann hefur tíma til, til að lesa grein sem ég er að láta birta í erlendum blöðum málstað okkar þar til varnar. (Gripið fram í: Nohh.)

Varðandi afstöðuna þegar til þess kæmi, ef samningar hefðu tekist um einstaka kafla, verður það væntanlega eitthvert heildarmat sem ræður niðurstöðu og afstöðu hvers og eins þótt vissulega muni margir horfa sérstaklega til sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Það að vera í forsvari fyrir (Forseti hringir.) eða fara með málaflokka sem um er fjallað í einstökum köflum er ekki endilega vísbending um það hvort menn telji niðurstöðuna í heild sinni ásættanlega þegar allt verður vegið og metið.