140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

tollvernd landbúnaðarvara og IPA-styrkir.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skil svar hæstv. ráðherra varðandi tollverndina svo að ekki verði breytt frá þeirri stefnu sem rekin hefur verið í ráðuneytinu varðandi þann þátt. Ég fagna því. Ég er ekki alveg með á nótunum varðandi IPA-styrkina þar sem stofnun eins og til dæmis Matís hafnaði því að sækja um þessa styrki. Ef ég hef skilið það mál rétt var það meðal annars vegna andstöðu úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og því er ágætt að fá alveg skýrt svar um hvort einhver breyting sé á þeirri afstöðu.

Mig langar einnig að bæta við einni spurningu um sjávarútveginn. Hæstv. ráðherra nefndi, sem ég fagna, að það sé engin stefnubreyting varðandi makrílinn en þá langar mig að spyrja hvort afstaða hæstv. ráðherra sé sú sama og verið hefur um deilistofnana, þ.e. að Ísland haldi algjöru forræði yfir samningum um þá.