140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

eftirlit Matvælastofnunar.

[13:47]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að beina spurningu til hæstv. ráðherra, aðallega ráðherra landbúnaðarmála en líka sjávarútvegs. Á fund atvinnuveganefndar í morgun kom forstjóri Matvælastofnunar og ýmsir starfsmenn hans ásamt fleirum úr til dæmis ráðuneyti hæstv. ráðherra vegna salt- og kadmíum-mála. Á þeim fundi kom skýrt fram að Matvælastofnun er ekki fært um að sinna skyldum sínum. Iðnaðarsalt hefur verið notað í meira en áratug þrátt fyrir upplýsingar þar að lútandi. Engar skýringar komu frá Matvælastofnun um hvers vegna það var notað svona lengi. Að sögn forstjóra stofnunarinnar er málið vandmeðfarið, eins og hann orðaði það.

Tilmæli frá Matvælastofnun voru að klára birgðir af áburði sem hafði ekki verið prófaður og klára birgðir af salti. Það skal notað og það skal étið svo lengi sem söluaðilar verða ekki fyrir fjárhagslegu tjóni. Áburði var og verður áfram dreift án prófana og ráðuneytið sjálft spilaði með árið 2007 þegar það tók afstöðu með banni um að veita upplýsingar um innihald áburðar sem hafði verið seldur. Þetta er ófremdarástand og vegna þessa er matvælaframleiðsla í landinu rúin trausti. Trúverðugleiki Matvælastofnunar er algjörlega horfinn og það mun enginn treysta Matvælastofnun framar meðan sömu stjórnendur eru þar við völd.

Krafan frá almenningi er skýr um að forstjóri, stjórnendur og þeir starfsmenn sem bera ábyrgð á málinu verði látnir fara og spurningin til hæstv. ráðherra er þessi: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í þessu máli? Eigum við að halda áfram með Matvælastofnun, sem er svo mikilvæg, á hún áfram að vera undir stjórn sama fólks og hefur komið henni í þá stöðu sem hún er í núna?