140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

eftirlit Matvælastofnunar.

[13:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé óvenjuskýrt í þessu tilviki þegar matvælaeftirlit á í hlut að það er í þágu almennings og neytenda og engra annarra. Það er frumskylda að sjá til þess að sú vara sem boðin er uppfylli kröfur, og eftirlitið á í fyrstu umferð sérstaklega að tryggja það, rétt eins og eftirlit yfirleitt er í almannaþágu og til almannaheilla, hvort sem það er vinnueftirlit til að tryggja að vinnustaðir séu ekki hættulegir eða annað.

Það sem nú ber að gera er að sýna með trúverðugum viðbrögðum og úrbótum að við viljum lágmarka skaðann sem af þessu hefur orðið, vonandi þó sem minnstur. Ég geri ekki lítið úr því að það er alvarlegt fyrir matvælaframleiðsluþjóð eins og Íslendinga þegar hlutir af þessu tagi koma upp. Við erum ákaflega viðkvæm fyrir því ef það dregur úr trúverðugleika okkar hvað það snertir að við vöndum okkur og framleiðum hollustu- og hágæðavöru. Við breytum auðvitað ekki því sem orðið er, en við getum með trúverðugum viðbrögðum við atburðum af þessu tagi (Forseti hringir.) sýnt að við tökum svona hluti alvarlega og gerum það sem í okkar valdi stendur til að bæta úr ástandinu.