140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

kaupmáttur heimilanna.

[13:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 9. desember 2011 birti Hagstofa Íslands rannsókn á útgjöldum heimilanna og þar inni voru meðal annars upplýsingar um ráðstöfunartekjur heimilanna. Í úrtakinu voru 3.475, og 1861 heimili tók þátt í könnuninni. Niðurstaðan er sú að tekjur á fyrsta fjórðungi hafa lækkað um 3,3% milli áranna 2009 og 2010, þ.e. í þeim fjórðungi heimila sem hafði lægstar tekjurnar.

Tekjurnar í öðrum fjórðungnum hafa hækkað um 4,1%, í þriðja fjórðungi um 5,8% og í þeim fjórða um 5,3%. Þetta segir mönnum það að tekjur heimilanna í lægsta fjórðungnum hafa lækkað á meðan tekjur annarra heimila hafa hækkað frá 4,1–5,3%. Þau heimili sem hafa lægstu tekjurnar í landinu eru þessi fjórðungur heimila sem hefur lægstar tekjurnar. Ég spyr hæstv. ráðherra sem er yfirmaður Hagstofunnar hvort þetta sé í samræmi við þann málflutning sem við heyrum um að staðinn hafi verið vörður um stöðu heimilanna með lágar tekjur. Ég tek fram að þetta er milli áranna 2009 og 2010, þá stóð til að standa vörð um stöðu heimilanna, sérstaklega þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Hefur hann skoðað þetta og hefur hann fullnægjandi skýringar á því að tekjur lægstu heimilanna hafa lækkað á meðan tekjur þeirra heimila sem hafa hærri tekjurnar hafa hækkað?