140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

kaupmáttur heimilanna.

[14:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það væri ágætt að við efndum til umræðu um þetta einhvern tímann við gott tækifæri, við hv. þingmaður og eftir atvikum fleiri hv. þingmenn, þar sem við hefðum tíma til að undirbúa okkur með gögnum og fara vel yfir þetta svið. Hv. þingmaður hreyfir hér með fyrirspurn mikilsverðu máli. Hvernig hafa kjör einstakra hópa samfélagsins þróast í gegnum þessa erfiðleika og hvernig hefur tekist að verja þau og/eða eftir atvikum deila út byrðunum? Það eina sem ég get fullyrt í þeim efnum er að við höfum gert okkar besta til að útfæra aðgerðir okkar þannig að þær hlífðu tekjulægri hópum samfélagsins og það gerist auðvitað með ýmsum hætti í gegnum það að reyna að verja velferðarkerfið fyrir niðurskurði í gegnum það að dreifa byrðunum í skattkerfinu þannig að hinir tekjuhærri og ríkari borgi meira. Mér hefur heyrst á umræðunni í samfélaginu, a.m.k. í ónefndum kreðsum, að menn hafi áttað sig á því að það hafi tekist. Söngurinn sem kemur úr ónefndum áttum bendir að minnsta kosti til þess að hinir tekjuháu og ríku finni fyrir því að þeir eru látnir leggja aðeins meira af mörkum.