140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

fyrirkomulag matvælaeftirlits.

[14:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er að minnsta kosti ljóst að ég ber stjórnskipulega ábyrgð á því hvernig tekið er á þessum málum þegar þau eru komin upp. Það má deila um hversu mikla ábyrgð ég ber á hlutum sem gerðust fyrir mína tíð í þessu ráðuneyti.

Ég tek það mjög alvarlega að viðbrögðin við þessu verði þá þannig að menn geri sitt besta til að greiða úr málinu, eins og ég fór rækilega yfir áðan. Ég get í raun og veru bara endurtekið að við tökum þetta mál mjög alvarlega. Að sjálfsögðu ber því ráðuneyti sem ber ábyrgð í þessum efnum á matvælaeftirliti og Matvælastofnun að taka hana mjög alvarlega.

Ég hygg að það megi sjá veikleika í ýmsu í þessum efnum. Þeir varða eftirlitið sjálft og hvernig það getur gerst að menn hafi væntanlega fyrir augunum í heimsóknum á vinnustöðum vöru sem er merkt til iðnaðarnota en er engu að síður notuð úti um allt land í matvælaiðnað. Það snýr eins og hér hefur komið fram ekki síður, og fyrst og fremst, að innflytjanda og seljanda vörunnar og kaupendunum. Það er til dæmis mikið áhyggjuefni að stærstu matvælaiðnaðarfyrirtæki landsins skyldu ekki sjálf hafa innri verkferla, aðfangaeftirlit og þekkingu til að koma í veg fyrir þetta. Látum vera að eitthvert innflutningsfyrirtæki hafi ekki þekkinguna.

Eftirlitið hefði þurft að standa sig þarna miklu betur og það þarf að huga að því hvernig það vinnur saman. Það er ljóst að það voru hnökrar í samskiptum Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í þessu máli og þá þarf að taka á því. Án þess að ég vilji hér gefa einhverjar yfirlýsingar um mögulegar meiri háttar kerfisbreytingar er að minnsta kosti ljóst að þetta verður að vinna betur saman. Ég held að við þurfum að taka aðskilið á því að greiða úr þeim málum sem nú hafa komið upp. Auðvitað vakna upp spurningar um hvað gæti komið næst. Er von á einhverju meiru af þessu tagi? Það þarf að fara yfir það en skoða þá frekar aðgreint hvort þetta ásamt með (Forseti hringir.) kannski öðru gefur okkur tilefni til að velta sjálfu grundvallarskipulaginu og verkaskiptingu fyrir okkur.