140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

fyrirkomulag matvælaeftirlits.

[14:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Þetta gildir auðvitað ekki einungis um ríkisstofnunina Matvælastofnun. Þetta gildir líka um Umhverfisstofnun og hugsanlega aðrar stofnanir. Ef við færum þá leið að gera þessar ríkisstofnanir að stjórnsýslustofnunum, að færa eftirlitið til að mynda til sveitarfélaganna og hafa það hingað og þangað um landið, slyppum við hugsanlega við alls kyns vandræði sem við höfum til dæmis séð í sambandi við Umhverfisstofnun varðandi Becromal-málið, díoxín-málið.

Svo er hægt að taka umræðuna um það með hvaða hætti stjórnsýslu Matvælastofnunar hefur verið háttað, t.d. varðandi díoxínið. Mér fannst, og mörgum, að þar hefði stofnunin gengið mjög harkalega fram með miklar aðgerðir á mjög veikum grunni en til dæmis núna í bæði þessu kadmíum-máli og með þetta iðnaðarsalt sem virðast miklu alvarlegri og hafa víðtækari notkun í för með sér inn í samfélagið og virðist einboðið að æskilegt sé að grípa til aðgerða er ekkert gert. Það vantar samhengi í þetta, að ekki sé minnst á stóra kökumálið (Forseti hringir.) þótt ekki standi til að æra neinn óstöðugan í dag.