140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins spyrja hv. þingmann út í tillöguna og nefndarálitið og vil þá helst í þessu andsvari ræða eftirlitsþáttinn. Á meðan ég sat í hv. velferðarnefnd eða þáverandi félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðisnefnd ræddum við mjög ítarlega og oft eftirlitsmál. Það er margt í íslensku samfélagi sem gefur okkur tilefni til að huga sérstaklega að eftirliti. Við höfum reynsluna af bágbornu eftirliti með fjármálastarfsemi, með lýtalækningum og fegrunarlækningum, með matvælaframleiðslu og nú ræðum við kjarnann í tilveru mannsins sem er frjóvgun með vísindalegum hætti.

Það er talað um það í þessu nefndaráliti að með því að halda staðgöngumæðrun innan hins opinbera heilbrigðiskerfis og tryggja eftirlit og eftirfylgni með hverju tilviki ætti að vera unnt að leggja með skilvirkari og einfaldari hætti mat á það hvernig til hefur tekist. Þá vil ég spyrja framsögumann nefndarálitsins: Fór nefndin yfir það hvort fullnægjandi eftirlit er nú með tæknifrjóvgun og glasafrjóvgun bæði innan opinbera kerfisins og einkavædda hluta heilbrigðiskerfisins? Eða verður það alfarið látið í hendur þessarar nefndar?