140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að núna í janúar árið 2012 sé okkur öllum ljóst að eftirlitshlutverk bregst víða og það er greinilegt að þar þurfum við virkilega að taka á honum stóra okkar. Ég geri ráð fyrir því að í þessu tilviki mundi þurfa að vera með sérstakan hóp eins og ég tiltók sem færi yfir umsóknirnar og mundi síðan fylgja ferlinu eftir.

Síðan veit ég að við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að almennt þurfi að taka verulega til og efla mjög eftirlit með velferðarkerfi á Íslandi, þar þurfum við að taka okkur á. Við höfum gjarnan talað um hvort það þyrfti að stofna einhvers konar eftirlitsstofnun velferðarmála, landlæknir gegnir þar ákveðnu hlutverki, en í þessu mjög svo viðkvæma máli tel ég mjög eðlilegt að við værum með sérstakan hóp fólks sem tæki þetta mál föstum tökum, færi vel yfir alla þræði þess og héldi utan um málið.