140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:28]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. framsögumanni frá meiri hluta velferðarnefndar fyrir greinargott nefndarálit. Þetta mál þarfnast góðrar umræðu og vandaðrar vinnu og ég tel að við séum núna að gefa okkur góðan tíma til að fara yfir það. Hér er lagt til í þingsályktunartillögu að farin verði sú leið eða ráðherra verði falið að semja frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og til þess að það líti dagsins ljós á að skoða ýmsa þætti og undirbúa frumvarpið vel.

Þingsályktunartillaga lýsir vilja þingsins til verðandi lagasetningar. Þar sem það er alveg ljóst að ekki er einfalt verk að semja frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, það er margt sem þarf að taka tillit til, spyr ég: Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að ekki er farin sú leið að í stað þess að leggja fram þingsályktunartillögu, eins og hér er gert, um að semja frumvarp með skilgreindum hætti og vinna áfram að því að fara yfir álitamál og sjá hvað út úr því þá kemur, hvort sem það yrði staðgöngumæðrun með þessum hætti eða enn þrengri eða einhverjum öðrum, í stað þess að nákvæmlega sé sagt fyrir um það hvernig frumvarp skuli líta út? Hvort tveggja gæti tekið sama tíma. Ég vil fá betri skýringar á því, hæstv. forseti, hvers vegna þessi leið er valin.