140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um orðalagið nákvæmlega í þessari tillögu, hvort semja eigi frumvarp eða hvort starfshópur eigi bara að skoða málið. Það var starfshópur sem skilaði áliti 2010, svokallaðri áfangaskýrslu. Okkur fannst eðlilegt að skipa annan starfshóp sem tæki málið upp á sína arma án þess að neitt sérstakt „pródúkt“ ætti að koma út úr því, því að til að þroska umræðuna og koma henni áfram þarf að kveða fastar að orði.

Eins og ég tiltók a.m.k. tvisvar í máli mínu er hér verið að tala um að starfshópur geri frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun en að sjálfsögðu tökum við síðan ákvörðun á þessari löggjafarsamkomu um hvernig það verður gert. Vegna þess hversu viðkvæmt málið er og af því að það snýst um grunngildi lífsins viljum við gefa mjög ákveðnar leiðbeiningar og segja til um hvaða álitamál þurfi að skoða. Ég get ekki séð að það þýði að starfshópurinn geti ekki skoðað fleiri álitamál. Við erum í raun og veru bara að gefa ákveðna leiðarlýsingu: Viljið þið gjöra svo vel og skoða þessi miklu álitamál fyrir okkur? Hlutverk ykkar er erfitt en við viljum mjög gjarnan að þetta verði skoðað.