140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég tala hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta velferðarnefndar um þingsályktunartillögu, sem nú liggur fyrir, um að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun.

Þetta er ný tillaga, önnur var lögð fram á síðasta þingi. Það er sannarlega álit þeirra sérfræðinga sem komið hafa á fund velferðarnefndar að síðari tillagan sé betur undirbúin en sú fyrri; og er þá sérstaklega talað um rétt, sjálfstæði og velferð staðgöngumóðurinnar. Það breytir því þó ekki að 1. minni hluti getur ekki lýst yfir stuðningi við málið. Tillagan snýst um að samið verði frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun og það getur 1. minni hluti einfaldlega ekki stutt að svo komnu máli.

Í greinargerð með tillögunni, sem lögð var fram, er talinn upp fjöldi atriða sem ræða þarf og huga að í vinnu þessa starfshóps og hægt er að taka heils hugar undir það. En í kjölfar þess þarf að fara fram ítarleg og almenn umræða um þau mörgu og mikilvægu efni sem takast þarf á við áður en ráðist verður í frumvarpsgerð. Það er líka rétt að minna á að starfshópur sem þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þ. Þórðarson, skipaði 2009, sem skilaði endanlega af sér 7. júní 2010, taldi ekki tímabært að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Að áliti 1. minni hluta hefur ekkert breyst á þeim átján mánuðum sem síðan eru liðnir í þá veru að nú sé rætt um frumvarpsgerð. Velta má því fyrir sér, frú forseti, til hvers vinnuhópar af þessu tagi eru settir upp ef svo á að skipa nýjan ef þingið vill allt í einu gera eitthvað annað.

Það er líka rétt að ítreka að mikill meiri hluti umsagnaraðila var á móti því að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði heimiluð á síðasta þingi og svo er enn, mikill meiri hluti er á móti því. Aðrir umsagnaraðilar, jafnvel þeir sem eru hlutlausir og taka ekki einarða afstöðu gegn því að heimila slíkt og semja frumvarp, veltu flestir upp brýnum og erfiðum siðferðislegum spurningum sem taka þarf tillit til.

Fyrsti minni hluti telur nokkur atriði vega þyngra en önnur og þau valda því að hann styður ekki niðurstöðu meiri hluta velferðarnefndar:

1. Gerð frumvarps er fyrsta skrefið að því að heimila staðgöngumæðrun, og svo sem fyrr hefur verið sagt þarf að svara ótal spurningum áður en það er gert. Í greinargerð með tillögunni eru talin upp fjórtán mikilvæg atriði sem kanna þarf. Leita þarf svara við öllum þeim álitamálum og kalla jafnframt eftir umræðum um þau áður en ráðist verður í frumvarpsgerð.

2. Enn hefur því ekki verið svarað hvernig hægt sé að koma í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvernig tryggja megi að um velgjörð sé að ræða. Það er eitt þeirra atriða sem í greinargerð með þingsályktunartillögunni er sagt að hafa þurfi í huga við frumvarpsgerðina. Það er einfaldlega ekki nóg, virðulegi forseti, það atriði þarf að ræða opinskátt.

Þá er spurt: Er nóg að sæðing, meðganga og fæðing verði öll innan opinbers heilbrigðiskerfis? Það er þekkt frá öðrum ríkjum sem ekki leyfa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, t.d. frá Bretlandi, að staðgöngumóður sé greitt fyrir „útlagðan kostnað“. Ég spyr: Hvað verður ef hún missir daga úr vinnu sem ekki eru taldir til veikindadaga, hver á að greiða það vinnutap? Meðganga er ekki áhættulaus og því þarf að vera skýrt hver ber kostnaðinn ef staðgöngumóðirin verður fyrir varanlegu heilsutjóni. Þetta eru einungis tvö dæmi af mörgum sem huga þarf að áður en við getum gert greinarmun á því hvað er staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvað er staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

3. Við þurfum að athuga mjög gaumgæfilega og hafa í huga að lagarammi um staðgöngumæðrun á Íslandi mun ekki koma í veg fyrir að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni verði leyfð í öðrum löndum. Lagarammi af þessari tegund mun heldur ekki koma í veg fyrir að Íslendingar sækist eftir staðgöngumæðrun í öðrum löndum. Það eru líka til dæmi um þetta frá Bretlandi og dómskerfið þar glímir einmitt mjög við þann vanda nú um stundir.

4. Það eru ekki rök í málinu, að mati 1. minni hluta, að staðgöngumæðrun tíðkist nú þegar á Íslandi. Í gegnum aldirnar hafa börn verið gefin á Íslandi. Konur hafa gefið systrum og mágkonum börnin sín. Vinnukonur eignuðust börn með húsbændum, og við getum spurt: Var það óheppni, var það ást eða var það staðgöngumæðrun? Það tíðkast margt þó að það sé ekki leyft og jafnvel bannað en ekki er þar með sagt að leiða eigi allt það í lög sem tíðkast.

5. Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að þröngur lagarammi sem einungis leyfir staðgöngumæðrun af heilsufarsástæðum mun ekki halda. Rætt hefur verið um að heimila staðgöngumæðrun aðeins í þeim tilfellum þegar konur hafa ekki leg, hvort heldur þær hafa fæðst þannig eða misst það á lífsleiðinni — og það má enginn halda að 1. minni hluti hafi ekki fyllstu samúð með konum, hvort sem þær hafa misst leg eða geta ekki eignast börn af öðrum ástæðum — en slíkur rammi mun ekki halda. Ef staðgöngumæðrun verður leyfð fyrir þröngt afmarkaðan hóp munu aðrir þrýsta á um að njóta sömu réttinda. Margar konur geta ekki eignast börn vegna annarra sjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma. Hvernig er ætlunin að svara því þegar þær óska eftir sömu réttindum á grundvelli jafnræðissjónarmiða? Einnig hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna hommar ættu ekki að geta eignast börn ef staðgöngumæðrun verður leyfð. Lesbísk pör geta og mega nú þegar eignast börn hér á landi. Til þessara jafnræðissjónarmiða hlýtur líka að verða að líta.

Hér hefur verið tæpt á nokkrum álitamálum og þau eru vissulega fleiri. Ég vek athygli á að hvorki hefur verið minnst á rétt staðgöngumóður né barns. Ítarlega er fjallað um það í áliti meiri hlutans; og 1. minni hluti tekur undir allt sem sagt er þar en ég verð þó að segja eins og er að ég held að ekki verði hægt að tryggja þann rétt með lögum.

Álit fyrsta minni hluta er undirritað af mér og Birgitta Jónsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, hefur lýst sig meðmælta því.

Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, að lögð hefur verið fram breytingartillaga við þessa þingsályktunartillögu. Við flytjum hana fjögur, ég er 1. flutningsmaður — og nefni sjálfa mig af því að ég er fyrst hér á blaði, þó að maður eigi aldrei að gera það — en einnig Eygló Harðardóttir, Árni Þór Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir. Tillagan gengur út á það að í stað þess að starfshópi verði falið að semja frumvarp, í stað orðanna „undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni“, verði starfshópnum falið að skoða álitamál um staðgöngumæðrun.

Í stað 2. og 3. málsgreinar hafi hópurinn til hliðsjónar þau efni sem nefnd eru í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Hef ég þar með lokið máli mínu, virðulegi forseti.