140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég hef oftast tekið þátt í umræðu um þetta mál þegar það hefur verið hér til umræðu. Í fyrstu tók ég ekki afstöðu til málsins vegna þess að ég taldi mig ekki hafa kynnt mér það nógu vel til að geta tekið afstöðu til þess. Síðan hef ég gert það og þeim mun betur sem ég kynni mér það þeim mun staðráðnari verð ég í því að þetta er mál sem þarf að ræða í þaula aftur á bak og áfram, og öll álitamálin. Það þarf að ræða staðgöngumóðurina og hvað kona gengur í gegnum þegar hún gengur með barn.

Ég hef ekki lesið þær 40 rannsóknir sem hv. þingmaður vitnar til en mér skilst að í þeim komi fram að þar sem konan geti skilið sig einhvern veginn frá barninu sem hún gengur með, af því að það séu ekki hennar gen eða eitthvað svoleiðis, þá komi hún bara út sem mjög hamingjusamur einstaklingur eftir að hafa gengið í níu mánuði með barn og gefa það svo frá sér á fyrstu tveim vikunum. Ég hef ekki mikla trú á rannsóknum af þessari tegund, ég segi það alveg eins og er.

Ég hef líka lesið um það að einmitt sé hætta á því að konur sem geti gert þetta séu konur sem geti einhvern veginn aðskilið sig frá líkama sínum og mér skilst að það séu helst konur sem hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. (Gripið fram í.) Ja, þetta eru rannsóknir sem ég hef lesið, þannig að hér er ýmislegt sem þarf að ræða. Hv. þingmaður segir að við eigum að hafa kjark til þess að samþykkja þingsályktunartillögu sem heimilar að samið verði frumvarp. Ég segi: Við eigum að hafa kjark til þess að skipa (Forseti hringir.) starfsráð sem ræðir málin, við eigum að hafa kjark til að segja: Við erum ekki tilbúin í frumvarpsgerð.