140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði verið ágætt ef þingmaðurinn hefði lesið áfram vegna þess að þar stendur líka, með leyfi forseta:

„Við vinnuna verður meðal annars lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins …“ o.s.frv.

Starfshópnum er einmitt ætlað að fara yfir öll þessi álitamál sem um ræðir. Starfshópnum er ætlað að semja frumvarp, ekki lög sem búið er að samþykkja heldur semja frumvarp sem verður borið undir Alþingi, sem Alþingi getur tekið afstöðu til þegar álitamálin hafa verið skoðuð nánar og reifuð og rætt hefur verið hvernig megi útfæra þau. Þá er komin fram tillaga að útfærslu á þeim atriðum sem við ræðum hér sem við, eða hverjir sem þá verða á þessari ágætu löggjafarsamkundu, getum tekið afstöðu til. Það er um nákvæmlega þetta sem málið snýst.

Það var eitt sem þingmaðurinn ræddi áðan sem er fín hugleiðing. Er það skýlaus réttur hvers einstaklings að eignast barn? Nei, sjálfsagt ekki. Mjög margir þrá ekkert heitar en að eignast barn en geta það því miður ekki. Þetta úrræði verður bara eitt af þeim úrræðum sem í boði eru fyrir fólk sem getur ekki eignast barn með öðrum leiðum. Það munu ekki allir barnlausir einstaklingar nýta sér þetta úrræði, það hentar sumum en öðrum hentar að ættleiða barn. Öðrum hentar að vera barnlaus. Þetta er eitt úrræði í allri flórunni. Mér finnst það vera skýlaus skylda okkar að skoða þetta fyrst við erum að hjálpa fólki í þessum málum. Þetta er þá umræða sem við getum tekið. Á að leyfa tæknifrjóvganir? Á að leyfa allt sem hefur verið leyft? Það er bara allt önnur umræða. Við erum komin hingað og þess vegna segi ég: Þetta er eitt af úrræðunum. Ég tel að við eigum að (Forseti hringir.) gera það þannig úr garði að þeir sem það kann að henta geti nýtt það.