140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér í þessum ræðustól að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og fjalla einnig aðeins um vinnu velferðarnefndar og álit meiri hluta nefndarinnar sem framsögumaður, hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, hefur gert mjög góða grein fyrir. Ég ætla enn fremur að koma aðeins inn á þau mál sem hér hafa verið til umræðu og varða gagnrýni á þá niðurstöðu sem hér er kynnt og kemur fram í álitum tveggja minni hluta hv. velferðarnefndar.

Ég var í þeim sporum, herra forseti, sem heilbrigðisráðherra sumarið 2010 að ég tók við áfangaskýrslu nefndar sem fyrri ráðherra, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafði skipað, líklega á árinu 2008, til þess að fjalla um siðferðisleg, læknisfræðileg og lögfræðileg álitaefni tengd staðgöngumæðrun. Eins og hér hefur komið fram snertir þetta mál líka fleiri álitaefni. Þau eru fjárhagsleg og tilfinningaleg. Umfjöllun þessarar nefndar þáverandi heilbrigðisráðherra hefur ekki verið gagnrýnd að ráði. Það hefur ekki verið gagnrýnt hvernig staðið var að vinnunni eða hverjar niðurstöðurnar urðu. Það sem menn hafa þó bent á er að lokasetningin, tillagan í nefndarálitinu, hefur verið gagnrýnd en hún var að ekki væri tímabært — þetta var sumarið 2010 — og ekki rétt að Ísland bryti ísinn og yrði fyrst Norðurlandaþjóða til þess að lögleiða staðgöngumæðrun.

Ég sem ráðherra var sammála þessu áliti á þeim tíma. Ég taldi það vel rökstutt og taldi ekkert ýta endilega á að við yrðum fyrst til þess að breyta lögum að þessu leyti.

Nokkrum mánuðum síðar, herra forseti, kynntist ég og aðrir þingmenn annarri hlið á þessu máli. Við vorum vakin hér upp, vil ég segja, af værum blundi í þingsal og við okkur blasti raunveruleikinn í þessum málum þegar íslenskir foreldrar óskuðu eftir því að líffræðilegur sonur þeirra sem fæddur var á Indlandi skömmu fyrir jól með staðgöngumæðrun fengi íslenskan ríkisborgararétt. Þau báðu þingið ásjár, þingmenn og hv. þáverandi allsherjarnefnd, og báðu um ríkisfang fyrir þetta barn og um leyfi til þess að fá að koma með það inn í landið. Þá hrukku margir við, og ekki síður þegar í ljós kom að á Indlandi voru margir tugir foreldra í sömu sporum sem höfðu beðið þar mánuðum saman, jafnvel lengur en í heilt ár.

Eitt dæmi var kynnt fyrir jól fyrir rúmu ári um einstæða móður sem hafði beðið með tvíbura í 18 mánuði á Indlandi og fékk ekki að fara úr landi eða inn í sitt heimaland sem er Noregur. Flestir þessir foreldrar eru frá Noregi en einnig Frakklandi. Þegar ég fór að kynna mér málið nánar kom í ljós að þessi börn eru fædd við alveg óskaplegar aðstæður þar sem konur eru jafnvel neyddar til að ganga í gegnum tæknifrjóvgun, neyddar til þess að ganga með, ala og loks gefa frá sér barn, gegn vilja sínum jafnvel og til þess að afla fjár fyrir fjölskylduna, fyrir eiginmanninn, fyrir föðurinn, fyrir soninn eða jafnvel bara fyrir þann sem gerir út kvennabúrið sem haldið er í þessu skyni.

Þetta eru alveg óskaplegar aðstæður og ég verð að segja, herra forseti, að þetta er ósiðlegt og óverjandi í alla staði. Í þetta sækja íslenskir foreldrar sem ekki geta átt barn með öðrum hætti, ekki bara til Indlands heldur einnig til Bandaríkjanna og Grikklands.

Nú er svo komið að menn vita í rauninni ekki hversu mörg þau börn eru sem hér eru nú með íslenskt ríkisfang, börn foreldra sem fædd eru með staðgöngumæðrun, bæði hér heima, að vísu, en einnig erlendis.

Þegar þessi raunveruleiki blasti við verð ég að viðurkenna að ég fór að hugsa hvað væri til ráða, hvað við gætum gert til að koma í veg fyrir misnotkun á konum sem viðgengst í þessu skyni og slíka vanvirðu við meðgöngu, fæðingu og meðferð barna. Auðvitað jaðrar þetta við, og er í mörgum tilfellum, brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem klárlega er hægt að heimfæra þetta upp á verslun með börn.

Ég tel að við eigum, og við þurfum og við verðum, að grípa til ráðstafana á alþjóðavettvangi til að koma í veg fyrir þessa óhæfu. En við getum líka byrjað á að taka til heima hjá okkur sjálfum. Niðurstaða mín varð sú að það væri rétt að heimila staðgöngumæðrun á Íslandi í velgjörðarskyni á grunni okkar siðferðiskrafna, á grunni okkar laga og reglna og að það ætti að halda því innan hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu.

Eins og ég sagði áðan er tæknin fyrir hendi. Það er ekki hægt að afneita því. Ef menn hafa ekki leyfi til þess að notfæra sér hana hér heima notfæra menn sér hana annars staðar í heiminum eins og áður hefur komið fram.

Ófrjósemi er skilgreind sem heilbrigðisvandamál í okkar samfélagi sem 15% og jafnvel 18% para eiga við að stríða. Við þekkjum það að á undanförnum áratugum hefur þessi prósentutala hækkað jafnframt því sem aldur frumbyrja hefur einnig farið hækkandi. Þessi 15–18% para leita til heilbrigðisþjónustunnar og þar er tækninni beitt til að lækna ófrjósemina með ýmsum hætti. Það tekst í allflestum tilfellum. Það tekst með skurðaðgerðum, það tekst með hormónagjöfum og ef það tekst ekki þannig er gripið til tæknifrjóvgunar, gjafaeggs og gjafasæðis. Í nokkrum tilfellum, fjórum til fimm eða sex tilfellum — við skulum muna að það fæðast yfir 4 þús. börn hér árlega — á ári geta pör ekki fengið úrlausn sinna mála innan heilbrigðislöggjafarinnar eins og hún er nú og mundu ef lögleyft væri leita til staðgöngumóður.

Við Íslendingar búum við mjög frjálslynda löggjöf í þessu sambandi eins og hér hefur verið bent á, m.a. hvað varðar tæknifrjóvganir þar sem hér er leyft bæði gjafaegg og gjafasæði. Á árinu 2010 var hér samþykkt í fyrsta sinn — þar var brotinn ís á Norðurlöndum — að kona geti gengið með barn sem er erfðafræðilega algerlega óskylt henni sjálfri, hún getur fengið bæði gjafaegg og gjafasæði. Við höfum líka miklum mun frjálslyndari löggjöf og þar höfum við gengið á undan með góðu fordæmi að því er varðar bæði einhleypa foreldra sem geta fengið aðstoð með tæknifrjóvgun til að ala börn og eins hvað varðar samkynhneigða.

Hið sama gildir um ættleiðingar. Við höfum mjög frjálslega ættleiðingarlöggjöf hér en hún er ströng og gamaldags í sumum atriðum og það er verið er að skoða núna í innanríkisráðuneytinu. Það mun vera von á tillögum til breytinga á henni. Við vitum að margir sem hafa leitað eftir því að ættleiða börn hafa ekki fengið neina úrlausn sinna mála vegna þess hversu langur biðtíminn er og vegna þess hversu erfitt er að fá börn innan lands og til landsins. Eins og hér hefur verið bent á eru alls ekki öll þau pör sem mögulega geta nýtt sér staðgöngumæðrun talin hæf til þess að ættleiða börn í þeim ríkjum þar sem hægt er að ættleiða börn vegna þess að mæðurnar hafa fengið alvarlega sjúkdóma, krabbamein eða slíkt.

Við búum hér við það að öll þjónusta heilbrigðiskerfisins á meðgöngu og við fæðingu er ókeypis. Það er mjög merkilegt, ekki síst þegar horft er til allra sjúklingaskattanna sem hér hafa verið teknir upp og hafa verið hækkaðir á mörgum sviðum síðan þeir voru fyrst teknir upp. Í gegnum allar þær breytingar sem hafa orðið á heilbrigðisþjónustu á undangengnum áratugum þar sem æ meira er seilst í vasa sjúklinga til að greiða fyrir þjónustu af ýmsu tagi er alltaf sú klausa inni að öll aðstoð ljósmóður á meðgöngu, hvort heldur er vegna heimafæðingar eða á heilbrigðisstofnunum, og fæðing skuli vera ókeypis.

Við búum líka við mjög góða og ég vil segja einstaka mæðravernd. Við höfum notið þess að ungbarnaverndin okkar hefur verið til fyrirmyndar sem er mæld í lífslíkum nýbura. Þar höfum við verið á toppnum. Það ætti að vera markmið okkar að reyna að halda því áfram.

Við búum líka við fæðingarorlof sem þó hefur verið skert á undangengnum árum vegna efnahagshrunsins, en grunnurinn er þar og þess er vonandi skammt að bíða að við getum aftur tekið upp þráðinn og farið að bæta réttindi foreldra í fæðingarorlofi í stað þess að skerða þau. Þeir sem ættleiða fá líka fæðingarorlof.

Að mínu mati, herra forseti, eigum við Íslendingar erindi í þessum efnum. Við getum sýnt fordæmi, við getum nýtt okkar góðu heilbrigðisþjónustu og okkar góðu löggjöf til að smíða siðrænan ramma um þá starfsemi sem nú er til vanvirðu, vil ég segja, og nokkrir Íslendingar eru ella á ári hverju neyddir til að nýta sér. Við eigum að verða fyrst Norðurlanda eins og á svo mörgum öðrum sviðum.

Af þessum sökum sem ég hef hér rakið gerðist ég meðflutningsmaður þeirrar tillögu sem hér er rædd annað sinn á Alþingi, reyndar á 139. þingi, löngu eftir að hún kom fram. Eins og ég segi var það málefni þessa drengs á Indlandi sem kveikti á perunni í mínum kolli.

Framsögumaður meiri hluta velferðarnefndar, hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, hefur þegar gert grein fyrir helstu breytingum velferðarnefndar, og reyndar heilbrigðisnefndar frá fyrra þingi, sem felast í þessari tillögu. Þar er lögð áhersla á rétt barnsins og að ekki er gert ráð fyrir bindandi samningi milli staðgöngumóður og verðandi foreldra. Í áliti meiri hluta velferðarnefndar vil ég vekja athygli á tvennu sem mér finnst skipta miklu máli, annars vegar að læknisfræðilegar ástæður skuli lagðar til grundvallar þegar veitt er leyfi til staðgöngumæðrunar þannig að forsendan sé að kona geti ekki alið barn af læknisfræðilegum ástæðum. Eins og hér hefur verið bent á útilokar það að hommar geti eignast barn með staðgöngumæðrun innan þess ramma sem við erum hér að ræða og það hefur verið gagnrýnt.

Það hefur verið gagnrýnt að þetta sé of þröngur rammi. En hvers vegna skyldum við gera þetta svona? Í mínum huga dreg ég mörkin við það að ef kona getur mögulega átt barn eigi hún að ganga með það sjálf. Hún á ekki sjálfkrafa að fá rétt til þess að láta aðra konu ganga með barn fyrir sig vegna þess að hún hafi öðrum hnöppum að hneppa eða vilji ekki láta sjá á brjóstunum á sér eða maganum að hún hafi gengið með barn. Þar dreg ég mörkin.

Hitt atriðið sem ég vek athygli á í áliti meiri hluta velferðarnefndar og er mér mikið hjartans mál er að þessi starfsemi verði algerlega innan opinbera heilbrigðiskerfisins, að það verði ekki, eins og í tæknifrjóvgununum, fyrirtæki úti í bæ sem annist það fyrir sjúkratryggingar heldur verði það gert á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss sem getur þá auðvitað ráðið verktaka í vinnu fyrir sig. Það verður að vera algerlega á ábyrgð hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu en ekki úti á einkamarkaðnum.

Í nefndaráliti 2. minni hluta velferðarnefndar er rakið að það eru ein 14 atriði sem meiri hlutinn telur að þurfi að athuga betur við vinnslu frumvarpsins sem við erum að ræða. Það er eðlilegt af því að það hefur orðið gríðarlega mikil umræða á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að þetta mál kom fyrst inn í þingsali. Þau eru kannski að verða þrjú. Það hafa komið mjög mörg sjónarmið og miklar nýjar upplýsingar fram við vinnslu málsins. Umræðan hefur þróast og viðhorfin breyst. Núna eru margir, sérstaklega fagstéttir, sem segja: Ja, við erum kannski ekki akkúrat á móti þessu en teljum þetta ekki tímabært.

Herra forseti. Það eru gríðarlega mörg álitaefni sem hér hafa verið rædd. Ég ætla ekki að orðlengja um þau í bili, tek frekar þátt í umræðunni ef tilefni gefst til. Ég vil samt segja að það hefur svolítið verið rætt um að það að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eingöngu geti orðið til þess að valdatengsl í fjölskyldunni bitni þannig á konum sem eru með veikari stöðu í fjölskyldunni að þeim sé þrýst út í það hlutverk að ganga með börn fyrir aðrar konur í fjölskyldunni. Ég vil í þessu sambandi vísa til álits meiri hluta velferðarnefndar þar sem fram kemur ábending um að fara þurfi með umsóknir um staðgöngumæðrun í gegnum fjölskipaða nefnd sem er sambærilegt og nú er og tíðkast vegna gjafaeggs og fóstureyðinga svo dæmi séu tekin.

Ég var og er mikill baráttumaður fyrir frjálsum fóstureyðingum. Ég verð að segja að frá 1975 hef ég ekki haft neitt tilefni til þess að trúa að nefndir vinni ekki vinnuna sína vel þegar þær fjalla um það hvort kona er raunverulega búin að ákveða það sjálf eða hvort það er vegna þrýstings frá foreldrum, barnsföður eða umhverfinu að öðru leyti, sem hún óskar eftir fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð. Þetta er allt innan hins opinbera heilbrigðiskerfis og þess vegna legg ég mikla áherslu á að þetta mál verði einnig þar inni.

Það er líka mikilvægt að nefnd sem fjallar um þetta sé algerlega óháð þeim sem koma síðan að því að framkvæma aðgerðina sjálfa.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um breytingartillögu sem fyrir liggur á þskj. 568. Ég get ekki stutt hana. Ástæðan er einfaldlega sú að þar er tekið skref aftur á bak í umræðunni, ekki aðeins er vísað til þess að það eigi að setja upp nýja nefnd sem eigi að fara yfir það sama og var gert fyrir mitt sumar 2010 heldur finnst mér í lið 2 í breytingartillögunni, um að hópurinn skuli hafa hliðsjón af niðurstöðum þessa sama vinnuhóps og ég nefndi hér í upphafi míns máls, heldur lítið gert úr þeirri vinnu sem fram hefur farið í Alþingi á tveimur þingum með því að gera ekki ráð fyrir því að þessi vinnuhópur líti til niðurstaðna bæði meiri hluta og minni hluta heilbrigðisnefndar á fyrra ári og velferðarnefndar núna. Þess vegna get ég ekki stutt þá tillögu.