140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hún þekkir þetta mál vel sem fyrrverandi formaður heilbrigðisnefndar sem vann afar mikla og góða vinnu, og ég þakka það, á fyrra þingi við fyrri tillögu um staðgöngumæðrun.

Mig langar að tæpa hér aðeins á nokkrum atriðum. Hv. þingmaður nefndi áfangaskýrsluna og niðurstöðuna sem þar var komist að, að ekki væri tímabært að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Ég gagnrýndi þessa skýrslu aðeins á sínum tíma, mér fannst vera einblínt þar of mikið á staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og ekki horft á það sem við erum að ræða hér. Einnig kom berlega í ljós, og það er mjög gagnrýnivert þar sem sérfræðingar voru kallaðir til, að menn höfðu ekki kynnt sér almennilega allar þær rannsóknir sem til eru um áhrif staðgöngumæðrunar á móður, barn og foreldra.

Í álitinu frá 7. júní 2010 er líka talað um að ekki sé tímabært að heimila þetta að svo stöddu, það þurfi undirbúning löggjafar á þessu sviði og síðan framkvæmd sem muni kosta peninga og er vísað í efnahagshrunið. Fínt. Nú segir ríkisstjórnin að hér sé allt á uppleið og meiri peningar í vændum þannig að það hljóta að vera aðrar aðstæður núna. En án gríns, þetta þarfnast mikils undirbúnings og mikillar vinnu, enda er það nákvæmlega það sem lagt er til að verði gert.

Síðan nefndi þingmaðurinn meðvirkni og þrýsting og þá langar mig að spyrja: (Forseti hringir.) Hvað með meðvirkni og þrýsting þegar kemur að eggjagjöf? Hefur hv. þingmaður jafnmiklar áhyggjur af því?