140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:20]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Varðandi áfangaskýrsluna má vel vera að horft hafi verið um of á að þetta væri gert í hagnaðarskyni, að ekki væri hægt að koma í veg fyrir kaup og sölu þessarar þjónustu. Ég tel að það verði aldrei hægt að koma í veg fyrir það. Hvort hægt er að takmarka það er annað mál en það verður aldrei hægt að koma í veg fyrir slíkt. Ef við erum á Evrópska efnahagssvæðinu er þessi þjónusta líka opin fyrir konur sem eru búsettar þar og þá gætu líka opnast frekari möguleikar á að þetta yrði einhvers konar söluvara.

Varðandi rannsóknir þá er bent á margar rannsóknir sem sýna að fáir hafi borið skaða af, hvorki staðgöngumæður, mæður né börn. En þetta þarf töluverðan tíma. Það er ljóst að þó að kona í fullri vinsemd og af kærleika gerist staðgöngumóðir þá er það með þeim skilyrðum að hún eigi börn fyrir, hún hafi fætt áður, hún gefi frá sér barnið. Í okkar litla samfélagi er það einhvers staðar í nærumhverfinu og söknuðurinn, eftirsjáin, fæðingarþunglyndi, þunglyndi getur komið eftir á. Og meðvirknin, þrýstingurinn mun aukast vegna þess að þetta er heimilt. Varðandi gjafaeggin og nafnlausu sæðisbankana þá tel ég að það sé eitthvað sem við ættum að horfa sérstaklega á og spurning hvort við höfum (Forseti hringir.) gengið of langt þar.