140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins varðandi rannsóknirnar. Það er rétt að þunglyndi og vandamál koma á löngum tíma og þess vegna eru þessar rannsóknir langtímarannsóknir eða margar þeirra sem ég hef lesið og þær taka einmitt á því.

Aðeins til að klára áfangaskýrsluna. Þar var lítið rætt um staðgöngumæðrun af velgjörð en það sem kom fram um staðgöngumæðrun af velgjörð í skýrslunni var jákvætt. Ég vil taka það sérstaklega fram hér.

Aðeins meira um meðvirknina og eggjagjöf. Nú er það svo að eggjagjöf er sannarlega minna mál en að ganga með barn. En eggjagjöf, það að gefa kynfrumu úr sjálfum sér, er að mínu viti meiri eða að minnsta kosti jafnmikil gjöf og að ganga með barn fyrir annan aðila, ég tala nú ekki um ef maður er staðgöngumóðir með kynfrumur annars aðila. Mér finnst það lykilatriði. Ég tala bara af minni reynslu, ég á tvo drengi, annar er mjög líkur föður sínum og hinn er nákvæmlega eins og ég. Ef ég gæfi systur minni egg og sæi barn sem væri lifandi eftirmynd mín tel ég alveg jafnmiklar líkur á því að söknuður, þunglyndi og erfiðleikar væru samfara því ef um einhvern þrýsting hefði verið að ræða.

Auðvitað viljum við setja upp þannig teymi að við gætum að því að fólk sé ekki beitt þvingunum og þrýstingi en við getum ekki gengið úr skugga um það varðandi eggjagjafir. Þrýstingur á systur og vinkonur getur verið nákvæmlega jafnmikill og því spyr ég hv. þingmann — hún sagði að þetta þyrfti að taka til endurskoðunar, og ég er ekki að tala um óþekkta gjafaeggið eða óþekkta sæðið heldur er ég einmitt að tala um systur, (Forseti hringir.) vinkonur: Hefur þingmaðurinn engar áhyggjur af þeim þrýstingi?