140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:25]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú. Ég get nú ekki sagt að ég hafi haft logandi áhyggjur af þessu varðandi gjafaeggin, en það er vissulega siðfræðilegt, þetta er inngrip í kvenlíkamann. En eftir sem áður erum við búin að taka það skref og ég held að við ættum að leyfa okkur það og vera svo sjálfsgagnrýnin að skoða hvaða áhrif það hefur haft á konur sem hafa gefið egg og á börnin sem hafa fæðst með þessum hætti og það fjölskyldumunstur sem verður svo til. Ég held að við ættum að líta vel yfir þetta og reyna að læra af því, fara ekki fram úr okkur. Tæknin leyfir okkur eitt og annað sem við viljum ekki taka upp, eins og klónun þó að það sé gróft að segja það í þessu sambandi en við erum komin svo langt á mörgum sviðum sem við viljum ekki taka upp.

Eggjagjöfin, ef við horfum á kynfrumur okkar og afkvæmi okkar, það er eðli mannsins að fjölga sér og uppfóstra eigin börn. Það er líka ástæðan fyrir því að margir líta svo á að það sé partur af staðgöngumæðruninni að bæði egg- og sæðisfruma sé ótengd staðgöngumóðurinni. En það er ekki bara staðgöngumóðurinnar vegna að margir telja að hún tengist ekki fóstrinu með sama hætti af því að hún á ekki eggið og maki á ekki sæðið, heldur af því að „ég á eggið, maðurinn minn á sæðið, ég á svo barnið, það er mitt“. Það er líka þetta; að eiga sitt eigið barn með maka sínum þó svo að það verði að koma svona í heiminn. Blessunarlega hefur þetta gengið vel hjá mörgum þar sem vel er staðið að þessum málum en það er líka alveg hörmulegt að vita hvernig (Forseti hringir.) aðstæður staðgöngumæðra eru á mörgum stöðum.