140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var um árabil blóðgjafi, ég held að ég hafi gefið blóð rúmlega fimmtíu sinnum. Ég gerði það með glöðu geði, fyrir mér var það gleði að gefa blóð. Ég hugsa að það sé svipað með þá konu sem býðst til að ganga með barn fyrir systur sína, að fyrir hana sé það gleði að geta gefið systur sinni barn, það er líka verið að gera það fyrir hana að leyfa þetta.

Hv. þingmaður talaði um að þetta væri líka heilbrigðismál, að meðgangan kostaði ríkissjóð svo og svo mikið og við hefðum takmarkaða peninga og allt svoleiðis, það væri spurning um að reyna að spara og vera ekki að auka útgjöldin. Þá er það spurningin: Eigum við þá ekki að banna getnað líka af því að það kostar þjóðfélagið svo mikið að fólk sé að geta börn úti um allan bæ?