140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ánægð að heyra að samkynhneigð stríði ekki gegn siðferðiskennd hv. þingmanns og þar erum við sammála. Hv. þingmaður segir að hún sé hlynnt því að samkynhneigðir eignist börn en hún er á móti því að við notum tæknina mikið við að búa til börnin. Þar er ákveðin þversögn vegna þess að með breytingum á lögum um tæknifrjóvgun er það þannig að samkynhneigðar konur þurfa annaðhvort að leita sér aðstoðar hjá hinu kyninu eða fá hjálp tækninnar við að geta barn. Ég næ því ekki alveg hvert vandamálið er. Er það tæknin? Vill hv. þingmaður þá bregðast við því með því að draga það til baka sem við höfum þegar leyft eða er vill hv. þingmaður bara ekki að konur geti gengið með börn fyrir aðra? Það væri ágætt að fá það fram.

Ég ítreka líka spurningu mína varðandi ættleiðingarnar, vegna þess að þingmaðurinn vísaði í barnasáttmálann. Ég er alveg sammála því og það er skýrt tekið fram bæði í tillögunni og í nefndaráliti meiri hlutans að ekki er verið að leggja til sölu á börnum, þvert á móti. Við erum að tala um staðgöngumæðrun af velgjörð og það mælist enginn til þess að börn gangi kaupum og sölum, ekki frekar en þegar börn eru færð til ættleiðingar og færð frá einu foreldri til annars með ættleiðingu. Eina salan sem við getum talað um er þegar menn fá greitt fyrir að gefa sæði eða þegar konur fá greitt fyrir að gefa egg. (Forseti hringir.) Það er salan sem við vitum um, en er þá ekki um barn að ræða? Það verður að barni og barnið verður fullorðið, eins og hv. þingmaður sagði.