140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar í síðara sinn um að Alþingi feli velferðarráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Þetta mál hefur tekið nokkrum breytingum frá síðasta þingi eða frá síðustu umræðu. Meiri hluti velferðarnefndar hefur t.d. lagt áherslu á hag og réttindi barns, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og að staðgöngumæðrun verði eingöngu heimiluð í velgjörðarskyni. 1. minni hluti velferðarnefndar bætir um betur og telur upp, sem er mjög mikilvægt, þann mikla meiri hluta umsagnaraðila sem er á móti því að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði heimiluð og telur það ekki tímabært og varar við því skrefi að heimila hana. Hið sama er uppi á teningnum nú og voru 10 af 13 umsagnaraðilum á því máli, aðrir umsagnaraðilar veltu upp brýnum og erfiðum siðferðisspurningum en tóku almennt ekki beina afstöðu í málinu, eins og segir í áliti 1. minni hluta velferðarnefndar. 2. minni hluti velferðarnefndar skilaði líka frá sér áliti þar sem segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti tekur jafnframt undir þá varnagla sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans og 1. minni hluta en leggur áherslu á að málið verði unnið frekar áður en ákvörðun verði tekin um að fela velferðarráðherra smíði frumvarps sem heimili staðgöngumæðrun.“

Herra forseti. Þetta er merkilegt og áhugavert mál og ég ætla að viðurkenna það strax sjálfur að ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því hvort ég styðji staðgöngumæðrun eða ekki. Ég tel í fljótu bragði varasamt að opna þennan glugga strax með þeim tilmælum sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni, þ.e. að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun. Ég tel að það eigi að fara aðra og varfærnari leið og skipa starfshóp sem skili ráðherra skýrslu um málið.

Ég ætla að leyfa mér að velta upp mikilvægum álitamálum sem ég tel að þurfi að ræða. Ég tek það fram aftur að ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á málinu, með eða á móti. Hin siðferðilegu álitamál eru risastór og ég sem hagfræðingur þekki náttúrlega mætavel afl og vald peninga, líka í siðferðilegum álitamálum.

Ég leyfi mér að velta því upp hver afstaðan verður þegar læknar með einkastofur krefjast þess að fá að sinna svona þjónustu gegn greiðslu samkvæmt lögum um atvinnufrelsi. Ég leyfi mér að benda á að hér á árum áður var glasafrjóvgun, sem nú heitir tæknifrjóvgun, upphaflega heimiluð í velgjörðarskyni og unnin á ríkissjúkrahúsinu Landspítalanum. Nú er slík þjónusta orðin verslunarvara og bisness upp á hundruð milljóna á hverju ári fyrir einkafyrirtæki.

Annað álitamál er hvort farið verði eftir niðurstöðu eða afstöðu Viðskiptaráðs til viðskipta- og samningsfrelsis sem ekki megi hamla. Þingmenn sem styðja málið hafa talað um þetta sem þjónustu. Ég vara svolítið við því að hugsa um þetta sem einhvers konar þjónustu því að þá getur þetta einfaldlega fallið undir hefðbundin viðskiptamál og t.d. þjónustutilskipanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eða Evrópusambandsins. Ég er ekki að segja að það geri það en fara þarf í gegnum þessi álitamál.

Hvað munu Samtök atvinnulífsins segja um þetta sem viðskiptatækifæri til nýsköpunar? Hver er afstaða þingflokka og þingmanna til staðgöngumæðrunar á Íslandi sem góðs tækifæris undir formerkjum erlendrar fjárfestingar? Vonandi munum við aldrei þurfa að upplifa þann dag að við förum í gegnum þessi atriði með það í huga að leyfa staðgöngumæðrun á slíkum forsendum en þetta eru atriði sem þarf að fara í gegnum og ræða hvernig menn ætla að koma í veg fyrir að málin endi þannig.

Það er mjög stutt á milli velgjörðar og hagnaðar. Við vitum að fólk fer til Indlands vegna þess að þar er staðgöngumæðrun ódýr. Þar er hægt að leigja konur til að ganga með barn fyrir tiltölulega lágar upphæðir. Ekki er með nokkru móti hægt að hugsa sér að staðgöngumæður á Indlandi séu eingöngu að þessu í velgjörðarskyni og því þarf að ræða hagnaðarsjónarmiðið ítarlega.

Ég leyfi mér að benda á og ítreka það sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir tæpti á í ræðu sinni áðan þegar hún nefndi íslenska konu sem við hittum fyrir nokkrum vikum sem hafði tekið að sér að verða staðgöngumóðir, svarað auglýsingu í íslensku dagblaði, farið þrjár ferðir til Suður-Evrópu og tekið þetta verkefni að sér gegn gjaldi. Hér er hins vegar talað um að heimila eingöngu staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þessi kona, sem hefur reynslu sem staðgöngumóðir, var með alveg þveröfugt sjónarmið. Hún sagði: Ef þetta mál kemur til þingsins þá verðið þið að koma í veg fyrir að þetta verði leyft í velgjörðarskyni. Svona mál má eingöngu leyfa svo fremi sem tryggt sé að hæfileg fjarlægð sé milli fólksins sem að því kemur og að viðkomandi kona fái einfaldlega greitt fyrir eins og hún fengi fyrir hverja aðra þjónustu. Þetta sjónarmið hafði ég aldrei heyrt áður og það kom mér verulega á óvart og vakti hjá mér ákveðinn óhug. Ég velti því upp af því að ég sé þess hvergi merki í neinum af þessum nefndarálitum hvort þetta sjónarmið hafi nokkru sinni verið rætt. Hver er afstaða manna til þess að fólk, sem hefur reynslu af þessu máli, hafi einfaldlega allt aðra sýn á málið en gert er ráð fyrir í þessari tillögu? Meðal annars þess vegna tel ég óviðeigandi að semja strax frumvarp um þetta mál. Staðgöngumæðrun gegn gjaldi er óhugsandi fyrir marga en við verðum samt að viðurkenna að setja þarf spurningarmerki þar við, því miður.

Að mínu viti þarf miklu meiri umræða að fara fram um þetta mál áður en frumvarp er samið og mig langar að skora á þingmenn, bæði stuðningsmenn og andstæðinga þessa máls, að leggjast allir sem einn á árarnar um að það verði farið vandlega og með hægð yfir þetta því að mér brá alveg hrikalega í lok septemberþingsins þegar ég sá með hvílíku offorsi áhugamenn um málið ætluðu að keyra það í gegnum þingið á síðustu korterunum. Það var meginstefnumál formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins þegar verið var að afgreiða lokadagskrá þingsins fyrir jólafrí að koma þessu máli á dagskrá þingsins áður en þingið færi í frí. Það er þetta sem hræðir mig og mig langar einfaldlega að hvetja flutningsmenn málsins til að fara sér hægar og styðja þá hugmynd að fyrst verði gerð ítarleg skýrsla sem hugsanlega megi þá nota til frumvarpsgerðar um að leyfa staðgöngumæðrun.

Við þurfum að fara varlega í þessum málum, sérstaklega vegna þess að þarna á bak við eru tækifæri fyrir óprúttið fólk og siðleysingja sem verður erfitt að hamla á móti þegar fram í sækir og ég held að það muni ekki verða hægt, sama hvað hver segir, að koma í veg fyrir að þetta verði innan örfárra ára orðið að einhvers konar bisness. Gott og vel, það er ákveðið sjónarmið að svo megi verða þó að mér hugnist það ekki. Það er ekkert í þessari tillögu sem gerir ráð fyrir að það verði athugað. Þess vegna þarf að staldra við og skoða þetta mál betur áður en þessi tillaga verður endanlega afgreidd. Ég styð þá breytingartillögu sem fram hefur komið um þetta mál, að fyrst verði samin um það ítarleg skýrsla áður en farið verði með það lengra.