140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að rifja aðeins upp hver málsmeðferðin á þessu máli hefur verið. Mín fyrsta fyrirspurn um þetta efni var í september 2008. Þá var skipaður starfshópur, þá var haldið málþing, þá skilaði starfshópurinn af sér. Ég kom í fyrra, í nóvember 2010, fram með þingsályktunartillögu. Hún náði ekki fram að ganga og var til umræðu á septemberþinginu. Ég kom með aðra tillögu byggða á því góða starfi sem hafði verið unnið í heilbrigðisnefnd og lagði hana fram 1. október 2011. Það er sú tillaga sem við ræðum nú.

Ef tillagan nær ekki fram að ganga á hverju löggjafarþingi þá þarf að leggja hana fram aftur. Ef ég ætlaði að ná þessari tillögu í gegn, eða við flutningsmenn þessarar tillögu, mundi þingmaðurinn ekki fallast á að þá þyrftum við að leggja hana fram tímanlega? Jú, hún var lögð fram 1. október. Mundum við þá ekki geta sammælst um að það þyrfti að klára málið fyrir þinglok? Jú, þess vegna er verið að taka góðan tíma í að ræða þetta núna.

Þingmaðurinn getur verið andsnúinn tillögunni og þá á hann bara að segja það en ekki saka fólk, sem er að reyna að koma málum í gegn sem það hefur sannfæringu fyrir, um offors þó að það beiti sér fyrir málum. Ef svo er ætla ég að hafa það í huga næst þegar þingmaðurinn leggur fram þingmál.