140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað aðallega til að halda til haga og kannski til að leiðrétta hv. þingmann. Ég vil í fyrsta lagi hvetja hv. þingmann, þegar talað er um hófsemi, til að gæta hófs í orðum sínum. Ætli einhverjir megi þá ekki líta í eigin barm? (Gripið fram í.)

Ég vil þó segja hv. þingmanni að um var samið sérstaklega hvernig ætti að fara með þetta mál. Það átti að taka það til afgreiðslu fyrir jól samkvæmt samkomulagi milli þingflokksformanna sem gert var í september. Þáverandi þingflokksformaður Vinstri grænna ákvað hins vegar að virða ekki það samkomulag. Úr varð, til þess að liðka fyrir þingstörfum, að þetta mál yrði tekið strax á dagskrá að loknu jólahléi. Þannig er málið einfaldlega. Enginn af okkur sem erum á þessari tillögu, sem erum býsna mörg, gerði það í einhverju offorsi þannig að það sé sagt.