140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:15]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það var rætt allmikið fyrir jól um hvort gert hefði verið samkomulag eða ekki. Margir könnuðust einfaldlega ekki við það og sýnt var fram á það með skriflegum gögnum, útprentuðum ræðum á þinginu, að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert. Til var yfirlýsing einhvers þingmanns úr ræðustól og það var allt og sumt.

Við höfum líka reynslu af því að það sem kallað er samkomulag um þinglok er ekki merkilegra en svo að menn hafa skrifað undir slíkt og tveimur dögum síðar verið búnir að rifta því þannig að allt slíkt tal er í rauninni einskis virði.

Aftur á móti var gert samkomulag um að taka þetta mál á dagskrá núna strax í upphafi þessa þings og við það hefur verið staðið og ég fagna því. Ég meina hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir samþykkti að málinu yrði frestað fram yfir jólahlé þingsins og það var að vissu leyti hófsöm ákvörðun af hennar hálfu og þess vegna er málið á dagskrá nú. En ég held, eins og ég sagði áðan, að það hefði verið komið lengra ef það hefði verið farið öðruvísi af stað með það í byrjun vegna þess að þetta er sérstaklega viðkvæmt mál.