140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:39]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg ljóst og liggur auðvitað fyrir í þessu máli, eins og því miður dálítið mörgum, að við hv. þingmaður erum ekki endilega samferða í afstöðu en ég er sammála í grunninn og held að við séum sammála í grunninn því að það þarf að taka ákvarðanir í þessum efnum að vandlega skoðuðu máli og byggja á mikilli umræðu í samfélaginu.

Maður staldrar aðeins við þann málflutning að skýrslan hafi í raun og veru verið hæpin vegna þess að sérfræðingarnir hafi ekki kynnt sér málin nógu vel. Það er einhvern veginn svolítil einföldun finnst manni á stöðu málsins. Það þyrfti þá að styðja slíka skoðun ítarlegri rökum að mínu mati, í hverju hún felst beinlínis.

Virðulegi forseti. Þar sem ég gat þess ekki áðan í ræðu minni finnst mér rétt og mikilvægt að það komi fram í sambandi við þá umræðu sem hefur verið uppi, um að meiri hluti nefndarinnar sé í raun bara að leggja til að þetta verði skoðað betur, svo verði gert frumvarp og þingið taki afstöðu til frumvarpsins, að það er auðvitað þannig að þingsályktun sem slík segir til um afstöðu þingsins til málsins, hún segir til um að taka eigi þetta skref. Vissulega eiga þá þingnefndir eftir að taka afstöðu til tæknilegra hliða frumvarpsins o.s.frv. en prinsippafstaðan hefur verið tekin ef þetta verður niðurstaða þingsins núna. Ég held að flutningsmennirnir ættu að gangast við því grundvallaratriði.