140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal meira en gangast við því, ég hef sagt það margoft í þessum ágæta ræðustól og síðast hér fyrr í dag.

Það er líka annað sem ég vildi nefna. Það er talað um mikilvægi þess að mikil umræða fari fram um þetta mál af því að það sé prinsippmál. Ég vil líka benda á að það hafa verið og það eru ein af rökum mínum í þessu máli að við höfum tekið svo mörg afdrifarík skref og kannski allt of umræðulaust. Þetta mál er búið að vera til umræðu af og til með hléum og reglulega upp á síðkastið í meira en þrjú ár. Ég merki það af syni mínum vegna þess að ég stóð hér kasólétt með fyrstu fyrirspurnina og hann varð þriggja ára í september.

Ég nefni sem dæmi að í maí 2010 voru samþykkt lög þar sem einhleypum konum var heimilað að fá tæknifrjóvgun með gjafasæði hvort sem það væri af þekktum eða óþekktum uppruna. Það mál rann í gegn nánast umræðulaust. Ég man að virðulegur forseti sem var þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpinu. Mig minnir að við höfum verið tvær, kannski þrjár sem tókum þátt í umræðunni og síðan þegar maður skoðar umsagnirnar frá þeim tíma — þarna er verið að gera grundvallarbreytingu, bæði siðferðilega upp á fjölskyldumynstrið, fyrir einhleypar konur, samkynhneigðar, skiptir engu máli — um að þær geti fengið tæknifrjóvgun og réttur barnsins til að vita upprunann var nánast ekkert ræddur. Umsagnir Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands voru á einn veg: Stuðla að auknu jafnræði meðal einstaklinga. Kvenfélagasamband Íslands studdi frumvarpið vegna þess að um var ræða almennt framfaramál sem bætti réttindi allra kvenna og lagabreytingin hefði í för með sér útvíkkun á réttindum kvenna hver svo sem félagsleg staða þeirra væri til að eignast börn með tæknifrjóvgun. Munurinn á þessu og staðgöngumæðrun (Forseti hringir.) er ekki lagalega mikill í þessum skilningi. (Forseti hringir.)