140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég get svarað henni því að ég er þeirrar skoðunar að í því tiltekna dæmi sem hún tók upp hefði ég ekki þá afstöðu að það væri eitthvað rangt í prinsippinu við það tiltekna dæmi sem hún nefnir. Efalítið er hægt að finna tilvik þar sem staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er réttlætanleg.

Áhyggjur mínar snúast fyrst og fremst um það að mér sýnist augljóst af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu, bæði frá stuðningsmönnum tillögunnar og efasemdarmönnum um framgang hennar eða þeim sem eru andsnúnir, að við eigum mjög mikið verk fyrir höndum og það þurfi að fara í mjög ítarlega vinnu til að komast að niðurstöðu. Það er ekki nóg að spyrja réttu spurninganna. Það er spurt margra mikilvægra spurninga í þingsályktunartillögunni sjálfri og greinargerð hennar en það verður ekkert áhlaupsverk að komast að niðurstöðu sem við getum verið fullsæmd af í frumvarpi til laga. Um það snúast mínar áhyggjur, ef svo má segja, að við getum ekki gefið okkur niðurstöðuna fyrir fram. Við getum ekki gefið okkur að í lok þessarar skoðunar verðum við enn þeirrar skoðunar að þetta sé farsælt skref fyrir íslenskt samfélag. Ég vil alls ekki útiloka að það verði niðurstaðan en ég tel að við eigum fyrst að fara í gegnum spurningarnar og skoða valkostina. Getum við fundið leið sem heldur sem löggjöf og er boðleg fyrir umbjóðendur okkar? Ef svarið við því yrði já teldi ég okkur komin á þann stað að geta sagt: Já, við skulum samþykkja staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Mér finnst hins vegar rétti tímapunkturinn ekki vera kominn.