140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:07]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að ég tel að þessar tvær leiðir sem við erum með fyrir framan okkur ólíkar. Önnur er um að taka ákvörðun um það núna að samið verði frumvarp, m.a. á grundvelli þeirra spurninga sem lagðar eru fram í þingsályktunartillögunni, og hin um að ákveða að skipaður verði starfshópur sem fari í gegnum álitaefnin og að á grundvelli þeirra tillagna sem starfshópurinn leggur fram verði tekin ákvörðun um það hvort við séum komin það langt að geta lagt fram frumvarp til laga eða hvort við þurfum að eyða meiri tíma í að vinna einhver tiltekin mál sem enn þá standa út af. Þetta eru tvær mismunandi leiðir, en ekkert mjög ólíkar að mínu mati, að sama marki. Sú leið sem ég tel að væri farsælli er að gefa okkur ekki fyrir fram að við náum þeim svörum sem við teljum að við þurfum að hafa, að þau svör verði mjög fullnægjandi til að löggjöfin verði burðug. Það er í raun og veru afstaða mín til málsins. Það er alls ekki efnisleg andstaða við málið í sjálfu sér en þegar við stígum þetta skref, af því að það er vandasamt og viðkvæmt og við getum ekki haldið okkur í fordæmi þeirra nágrannaþjóða sem við viljum horfa til í velferðarmálum, er mikilvægt að við stöndum mjög vel og vandlega að þessari löggjöf. Ég held að það séu ágætar líkur á því að við náum að finna ásættanleg svör við spurningunum en ég er ekki í færum til að meta það áður en sú skoðun hefur farið fram.