140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Svarið er nei, ég hef ekki áttað mig á þeim breytingum öllum sem hafa orðið síðustu árin. Ég verð að viðurkenna að í þessu máli og í nokkrum öðrum hef ég svolítið saknað þess í fyrsta sinn á ævinni að vera ekki í þeirri stöðu sem t.d. kaþólikkar eru að í siðferðilegum spursmálum af þessu efni senda þeir bara skeyti til Vatíkansins og fá svar: Þú átt að kjósa svona.

Um tæknifrjóvgun samkynhneigðra er það að segja að það mál er ólíkt þessu að því leyti að ég hef sem þingmaður og fjórum eða fimm sinnum sem frambjóðandi í kosningum lýst yfir stuðningi við réttindabaráttu samkynhneigðra og eitt af ánægjulegustu verkum sem ég hef staðið að hér á þingi er að koma lagaréttarlegum málefnum þeirra í höfn. Hvað sem menn vilja nú segja um einstök ákvæði í lögum eða lagakróka um það mál geta þeir auðvitað alltaf haft á því ýmsar skoðanir, en ég stend fullkomlega við það sem ég gerði. Það gerði ég í umboði kjósenda minna sem ég fékk vegna þess að ég lýsti yfir stuðningi við málið. Ég tel að þingmenn hafi miklu minna umboð til að taka afstöðu í þessu máli og beri að fara, eins og ég sagði í ræðu minni, eins varlega og hægt er, m.a. af þeim sökum.