140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn er, eins og fram kom í ræðu hans, á harðahlaupum undan afstöðu í málinu vegna þess að hann lítur svo á að hann eigi að geta tekið mið af umræðu, af svörum, af rökum sem fram koma í hópum fagmanna, í hópum áhugamanna, í kvennahreyfingunni og annars staðar þar sem eðlilegt er að frumumræða um þetta eigi sér stað. Það er þannig.

Það er þess vegna sem ég vil ekki fá frumvarp sem búið er að ákveða fyrir fram hvernig eigi að vera í megindráttum, heldur vil ég að settur sé á stofn hópur sem fjalli um þau álitamál sem hér hafa verið nefnd og komu meðal annars fram í greinargerð tillögumanna. Það kann að vera að á næsta þingi eða eftir tvö, þrjú ár verði þingmaðurinn hæfur til þess og telji sig þess umkominn að taka afstöðu til þessara álitamála.

Um Norðurlönd er það að segja að ég tel, og það er mín almenna afstaða, að við eigum ekki að fara langt frá þeirri samfélagsskipan sem við lýði er í norrænu ríkjunum, en Ísland er Ísland og Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur eru Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur. Konungur ríkir yfir þremur þessara ríkja en ekki hér og ég tel það algjörlega eðlilegt og hyggst ekki leggja til í þeirri umræðu sem hér fer fram um forsetaembættið að lýðveldinu verði breytt í konungdæmi. Í því felst hins vegar engin vanvirðing fyrir konungum og drottningum Norðurlanda og allra síst þeirri sem nú hélt upp á 40 ára ríkisafmæli sitt. Það er bara einfaldlega þannig að sumt tíðkast þar og annað hér og þannig á það að vera.

Við eigum að skoða það mál ágætlega og rétt er að vekja athygli á því að til greina kom að taka konung þegar lýðveldið var stofnað. En að bestu manna yfirsýn var fallið frá því og Ísland er enn þá lýðveldi með forseta og þingbundinni stjórn.