140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær féllu þessi orð af munni hv. þm. Þórs Saaris úr þessum ræðustól, með leyfi virðulegs forseta:

„Þetta er arfleifð Sjálfstæðisflokksins, sá sem hylmdi yfir með áburðarsölu var hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem þá var landbúnaðarráðherra. Það er bara staðreynd málsins.“

Nú ætla ég ekki að útiloka að það hafi komið fyrir að ósönn orð hafi fallið úr þessum ræðustóli. Hitt er örugglega óalgengara að það sé vísvitandi. Hv. þm. Þór Saari skrökvaði vísvitandi í gær, bar mig sökum sem hann sjálfur vissi að voru ósannar. Þau mál sem um er að ræða voru rædd í gær á fundi atvinnuveganefndar og þau útskýrð. Hv. þingmaður var þar viðstaddur og ætti að hafa skilið þau og munað. Engu að síður féllu þessi orð tveimur klukkustundum eftir að málið hafði verið útskýrt.

Um var að ræða álitamál um hvort birta mætti opinberlega tilteknar upplýsingar um efnainnihald áburðar. Vilji Matvælastofnunar stóð eindregið til þess að birta upplýsingarnar. Því máli var vísað í formi stjórnsýslukæru til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og niðurstaðan var skýr. Það var ekki heimilt að gildandi lögum. Þetta var í ársbyrjun 2008.

Þá gat ráðherra gert þrennt: Hann gat brotið lögin og heimilað birtinguna. Það kom að sjálfsögðu ekki til greina. Hann gat unað við ástandið, það vildi hann ekki. Hann gat freistað þess að fá lögum breytt á Alþingi og það síðastnefnda var einmitt gert. Það lýsti vilja mínum til að opna þessar heimildir og birta þessar upplýsingar. Vilji minn í málinu var mjög skýr. Frumvarp var lagt fram en það náði því miður ekki fram að ganga, á því hafði ég ekki vald. Ég reyndi mitt ýtrasta til að málið yrði afgreitt en varð ekki að ósk minni.

Það liggur enn fremur fyrir að eftirlitsaðilinn vildi birta þessar upplýsingar. Til hins sama stóð vilji ráðherrans. Eftir sem áður gat eftirlitsaðilinn MAST haft öll þau afskipti af innflutningnum sem lög heimiluðu til að tryggja gæði áburðarins og á það var einmitt bent í úrskurði ráðuneytisins á sínum tíma. Þetta mál snerist ekki um það og ég harma þessi ummæli hv. þm. Þórs Saaris.