140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi taka undir ummæli hv. síðasta ræðumanns Birkis Jóns Jónssonar. Þessi niðurstaða Hagstofunnar, sem birtist í morgun, um fækkun starfa á vinnumarkaði, er auðvitað athyglisverð. Hún sýnir að raunverulegt atvinnuleysi í landinu er mun meira en atvinnuleysistölur segja til um. Ýmsar skýringar eru á því. Um er að ræða fólksflótta, um er að ræða að fólk sem verið hefur á vinnumarkaði hverfur til náms eða er með öðrum orðum ekki lengur í vinnu eða í leit að vinnu með virkum hætti. Það þýðir að þær tölur sem hafa virst jákvæðar, um að atvinnulausum hafi fækkað, segja ekki alla söguna. Það, hæstv. forseti, gefur okkur tilefni til að taka þetta atriði til sérstakrar umfjöllunar. Það að mælingar Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi sýna minna atvinnuleysi segir ekki alla söguna af því að aðrar mælingar eftir öðrum mælikvörðum sýna að þeim sem eru á vinnumarkaði hefur fækkað um þúsundir á undanförnum árum.

Þetta þurfum við að fara í gegnum, hæstv. forseti. Jafnframt, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á, þurfum við að ræða það hvernig við snúum vörn í sókn og förum aftur að fjölga störfum á vinnumarkaði. Það hlýtur að vera eitthvert mikilvægasta verkefni okkar þessa dagana og þessi missirin.

Út af ummælum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um ummæli hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar er að lokum rétt að minna á að þegar ákvarðanir hafa verið teknar á grundvelli núverandi samstarfs okkar við Evrópusambandið, í gegnum EES og Schengen, hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að þar væri ekki gengið óhæfilega langt í framsali valds miðað við íslensku stjórnarskrána.