140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir einu ári og einum degi sendi ég forsætisnefnd bréf og óskaði eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda um ríkisábyrgðir eða fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins sem ekki koma fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ástæðan var sú að mér fannst vera lausung á fjármálum ríkisins og ég nefndi sem dæmi yfirlýsingu ráðherra um að það væri ábyrgð á innstæðum í bönkum. Það er ekki ríkisábyrgð á þeim, ég vil taka það fram.

Icesave fór hér í gegn sem lög en kom aldrei fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Síðan er ríkisábyrgð á Saga Capital, VBS og ýmsum fyrirtækjum og svo hefur SpKef bæst við þar sem rætt er um 10–20, jafnvel 30, milljarða sem vantar í fjárlög eða fjáraukalög. Það nýjasta er 7. mál á dagskrá í dag, ábyrgðir vegna Seðlabankans. Ríkissjóður ber nefnilega ábyrgð á Seðlabankanum og hann dælir út ábyrgðum hingað og þangað, nokkurn veginn stjórnlaust. Við urðum vör við það í hruninu að hann gaf út svokölluð ástarbréf sem hafa valdið ríkissjóði gífurlegum búsifjum og ég velti fyrir mér hvort fjárlaganefnd þurfi ekki að fjalla um Seðlabankann sérstaklega og ábyrgðir hans. Það er reyndar 7. liðurinn á dagskránni í dag.

Mig langar til að forvitnast um afdrif þessa bréfs sem ég sendi. Getur einhver upplýst um það hvort þessi skýrsla sé væntanleg og þá hvenær? Hún mun væntanlega varpa ljósi á málið en það er ljóst að vandræðin í Evrópu eru að miklu leyti vegna mikilla ábyrgða og skuldsetningar ríkissjóða sem ekki voru á fjárlögum. Ég nefni sérstaklega Grikkland í þessu sambandi.