140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kem hingað til að bregðast við orðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að ég hafi skrökvað úr ræðustóli í gær. Hér er um að ræða mál sem var tekið fyrir á fundi atvinnuveganefndar í gær þar sem skýrt kom fram frá Matvælastofnun að þegar um væri að ræða hvort upplýsa ætti um innihald áburðar frá Áburðarverksmiðjunni gæti það hugsanlega verið brot á lögum. Áburðarverksmiðjan kærði til ráðuneytisins þá afstöðu Matvælastofnunar að birta þær upplýsingar. Það var ráðherrans að úrskurða í málinu og hann úrskurðaði upplýsingunni í óhag og seljanda vörunnar í hag. Að mínu mati er slík stjórnsýsla ótæk og hér hefði ráðherrann átt að stíga fram skilyrðislaust og taka upplýsingaskyldu og almannahag fram yfir hagsmuni og hagnað fyrirtækis og taka þennan hugsanlega lagalega slag sem hefði fylgt í kjölfarið. Þannig hefði góð stjórnsýsla átt að vera. Ég benti á það í ræðu í gær að ég tel leiðina sem ráðherrann fór ekki góða.

Niðurstaðan er að matvælaeftirlit á Íslandi er rúið trausti og matvælaframleiðsla hefur mjög skaddað orðspor vegna þess að í kjölfar þessa úrskurðar náðu þingmál ráðherrans ekki fram að ganga í þinginu. Það er niðurstaðan í þessu sem skiptir meginmáli og við eigum að snúa bökum saman um að reyna að endurvekja traust á Matvælastofnun og matvælaeftirliti í landinu. Það verður ekki gert með núverandi stjórnendur Matvælastofnunar við völinn og það er vonandi að Alþingi og núverandi ráðherra þessara mála hafi kjark og þor til að taka almennilega á þeim. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)