140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en að blanda sér í þessa umræðu. Ég hvet menn til að fylgjast með því sem hér fór fram. Hér gagnrýndu alþingismenn íslensku þjóðarinnar fyrrverandi hæstv. ráðherra fyrir að fara að lögum, töldu það fyrir neðan allar hellur.

Efnislega var ekki einu sinni um deilu að ræða því að fyrrverandi hæstv. ráðherra flutti frumvarp til að ná þeim markmiðum sem þingmenn voru sammála um. Það er ekki nokkur einasta leið að gagnrýna hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson í þessu máli nema ef menn vilja í fullri alvöru gagnrýna ráðherra fyrir að fara að lögum. (Gripið fram í: Það var hugsanlegt … Hafðu það rétt.) (Gripið fram í: Þetta var úrskurður.) Hér kemur kall um að þetta hafi verið hugsanlega eitthvað. Við erum að tala um að meira að segja þegar færustu sérfræðingar í ráðuneytinu koma með úrskurð segja menn: Það á ekkert að fara eftir honum. (BirgJ: Almannahagsmunir …) Ég hvet varamenn og annað fólk — endilega galið eins og þið viljið, hv. þingmenn, ég vona að hér sé einhver að hlusta. Ég vona að fjölmiðlar þessa lands veki athygli á þessu. (Gripið fram í: Það vona ég líka.) Ég vona að þeir veki athygli á því að hér eru — og ég er ekki að ýkja — hv. þingmenn sem hvetja hæstv. ráðherra til að fara ekki að lögum. (Gripið fram í: … ráðherra.)

Við erum svo heppin með það, þetta er ekki eins og í ríkisstjórninni, að hér er allt tekið upp þannig að það er auðvelt að spila upptökuna.