140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þau eru fjölbreytt, umræðuefnin hér á þeim tíma sem þingmenn hafa til að ræða um landsins gagn og nauðsynjar.

Mig langar að halda áfram að ræða um atvinnumálin og þá staðreynd að vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sýnir að á þremur árum hefur vinnuafl hér á landi minnkað um 6.700 manns. Það væri kannski æskilegt að við í þessum sal færum að velta því fyrir okkur hvernig við getum snúið ofan af þeirri afleitu þróun sem blasir við okkur, sem hefur leitt það af sér að fólk hefur því miður þurft að fara úr landi, starfa annars staðar vegna þess að ekki er svo mörgum störfum til að dreifa hér á landi.

Þá er eðlilegt að við þingmenn Framsóknarflokksins spyrjum hvort það standi til yfir höfuð hjá stjórnarmeirihlutanum á Alþingi að horfa til þeirra tillagna sem við höfum lagt fram í atvinnumálum og í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það eru tillögur sem skipta tugum. Er það virkilega svo, og maður beinir því til hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarliða, að ekki sé hægt að horfa á eina tillögu sem frá okkur kemur sem miðar að því að fjölga störfum hér á landi?

Við horfum upp á að við erum að greiða yfir 20 milljarða á ári í atvinnuleysisbætur. Við horfum upp á ríkisstjórn sem því miður hefur þvælst fyrir uppbyggingu í sjávarútveginum og orkuiðnaðinum og hefur flækt umhverfi atvinnulífsins með þeim hætti að erlendir aðilar eru farnir að horfa í aðrar áttir þegar kemur að atvinnusköpun hér á landi. Þessu verðum við að breyta og ég kalla eftir því við hv. þingmenn að við förum að ræða um þau mál sem skipta heimilin í landinu miklu máli. Það eru atvinnumálin, við þurfum að fjölga störfum því að annars náum við ekki að snúa ofan af þeirri öfugþróun sem hefur átt sér stað á undangengnum þremur árum, alveg sama hvað ríkisstjórnin tautar og raular og afneitar fólksflótta og afneitar afleitum árangri (Forseti hringir.) í atvinnumálum. Við verðum einfaldlega að fara að girða okkur í brók og breyta þessari þróun og snúa henni við.