140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tel að við sem störfum á Alþingi þurfum að gera okkur grein fyrir því hver raunveruleikinn er í þessum efnum. Það er staðreynd að íslensk pör leita eftir staðgöngumæðrun í fátækum löndum, á Indlandi en einnig í Bandaríkjunum og í Grikklandi.

Við höfum hér allt til þess að skapa siðlega og góða umgjörð utan um staðgöngumæðrun og við eigum að vera fyrst til þess. Við eigum að sýna fordæmi og við eigum að byggja á þeirri góðu löggjöf sem við höfum á öllum sviðum í kringum þetta mál. Við eigum að byggja á hinni góðu, almennu heilbrigðisþjónustu sem hér er og ættleiðingar- og fæðingarorlofslögunum. Við höfum allt til þess sem aðrar þjóðir geta ekki gert og þess vegna eigum við að vera fyrst og brjóta ísinn. (REÁ: Heyr, heyr.)