140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir málflutning hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Hér er einungis verið að leggja til að fram fari frumvarpssmíð og umræðan á sér stað þegar frumvörp eru hér til afgreiðslu, því að eins og þingmenn vita koma málin hér fram. Það er hægt að ræða þau í 1. umr., þau fara síðan til nefndar og þar er kallað eftir álitsgjöfum til að segja álit sitt á viðkomandi frumvarpi.

Ég hef kynnt mér þetta mál, staðgöngumæðrun, afar vel og ætla að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir vegna þess að ég held að einungis með framlagningu frumvarps á Alþingi verði umræðan þroskuð, þá koma þau álitamál loksins í ljós sem um er deilt hér.