140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:05]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég er kominn á virðulegan aldur og má reyndar muna tímana tvenna. Í gegnum tíðina hafa ýmsir haft áhyggjur af mér, ekki bara hv. þm. Margrét Tryggvadóttir heldur margir fleiri sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Til að mynda man ég eftir því, þegar síðasta öld var að síga á seinni hlutann, að þá spurði verðandi tengdamóðir mín hvað ég ætlaði að leggja fyrir mig, með nokkrum áhyggjutón í röddinni. Ég sagði henni að ég ætlaði að verða rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Yndisleg manneskja sem hún var þá tók hún því mjög vel en gat ekki á sér setið að spyrja mig um leið: En á hverju ætlarðu að lifa?

Þetta var spurning sem var mjög algeng á þessum tíma. Ég veit ekki hversu margir hafa spurt mig að því hvert væri mitt lifibrauð. Þetta er nokkuð sem íslenskir listamenn hafa þurft að þola alla tíð, þ.e. þá útbreiddu skoðun að störf þeirra séu meira til gamans, séu föndur, séu merki um að viðkomandi sé ekki fallinn til annarrar vinnu eða til annars en að dunda sér eitthvað í eigin hugarheimi.

Sem betur fer vaknar skilningur á því smátt og smátt að listin er grundvallaratriði í hverju þjóðfélagi, listin er sál þjóðfélagsins. Sálin verður að vera heilbrigð og í jafnvægi. (Gripið fram í.) Þarna er örugglega heilbrigð sál í mjög stórum líkama.

Á síðasta ári kom út mjög merkileg skýrsla sem heitir merkilegu nafni en hún fjallar um hinar skapandi greinar. Orðalagið skapandi greinar er fegrun á orðinu „list“ og notað í staðinn fyrir það. Það kallast euphemismi á alþjóðamáli, vegna þess að list hefur svo slæmt rykti í þjóðfélaginu að ekki þótti lengur hægt að nota það orð þegar talað var um eitthvað í alvörunni. En í þessari skýrslu um hinar skapandi greinar — mér er nákvæmlega sama hvað menn kalla list, þeir mega kalla hana skapandi greinar eða hvað sem þeir vilja — kom fram að hinar skapandi greinar væru ekki einasta sál þjóðfélagsins heldur einn af undirstöðuatvinnuvegunum í efnahags- og atvinnulífi okkar.

Tíminn er fljótur að líða. Ég ætla að minnast á þá skapandi grein sem ég hef mesta þekkingu á. Það er yngsta listgreinin, listgrein sem kom fram á 20. öldinni og heitir kvikmyndalist eða kvikmyndagerð. Eins og gildir um alla list eru mörkin óljós milli þess hvar iðnaður eða handverk endar og listin tekur við. Þau mörk verða menn að finna út held ég hver í sínu lagi og hver að hafa sína skoðun á því.

Þegar ég lauk námi í kvikmyndagerð og kom hingað heim var engin kvikmyndagerð til á Íslandi. Það voru gerðar fréttamyndir hjá sjónvarpinu, að öðru leyti var engin kvikmyndagerð til. Núna er kvikmyndagerð á Íslandi blómleg starfsgrein sem telur 750 ársverk, það er meira en helmingurinn af þeim ársverkum sem hin margbölvaða framkvæmd Kárahnjúkavirkjun og eftirfylgjandi stóriðja hafa leitt af sér. Þessu fylgir engin mengun, þetta er hrein stóriðja, stóriðja andans. Við höfum náð alþjóðlegum árangri, íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa hlotið viðurkenningu úti um allan heim og fyrir þá sem eingöngu trúa á hina efnahagslegu viðurkenningu má benda á afrek Baltasars Kormáks nú nýlega þegar hann sló í gegn í peningaheimi Bandaríkjanna og átti aðsóknarmestu kvikmyndina fyrstu sýningarhelgina. (Forseti hringir.)

Nú langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því hvort við kvikmyndagerðarmenn megum ekki reikna með því, á þeirri öld sem nú er upp runnin, að (Forseti hringir.) stuðningur við kvikmyndagerðina verði í samræmi við þann árangur sem náðst hefur og þá (Forseti hringir.) á hvaða hátt. — Frú forseti, ég biðst afsökunar á að hafa farið örlítið fram yfir ræðutímann.