140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og þingmanni Þráni Bertelssyni fyrir að vekja máls á stöðu kvikmyndagerðar. Ég veitti því eftirtekt að hann spyr þá sem hér stendur um horfur mála á öldinni, 21. öldinni. Það er sjaldan að maður fær leyfi til þess að tala um lengra tímabil en kjörtímabil, en það er ágætt. Ég ætla þó fyrst og fremst að fara yfir stöðuna eins og hún er núna í samtímanum.

Eins og kunnugt er hefur verið talsverð umræða, ekki minnst úti í samfélaginu, um stöðu kvikmyndagerðar eftir umtalsverðan niðurskurð til Kvikmyndasjóðs á fjárlögum árið 2009. Síðan hefur auðvitað verið unnið talsvert að málum og í mjög góðri samvinnu mundi ég segja við þá sem eru starfandi í geiranum. Til að mynda var unnin mikil skýrsla um stefnu í kvikmyndagerð sem unnin var í samráði ráðuneytis og kvikmyndageirans þar sem fulltrúar kvikmyndageirans lögðu fram sín forgangsmál, hvað þeir teldu mikilvægast að ná fram til að stuðla að framgangi íslenskrar kvikmyndagerðar. Þar var að sjálfsögðu rætt mikið um framlög til Kvikmyndasjóðs en önnur atriði komu einnig fram, svo sem kynningarmál íslenskra kvikmynda erlendis, framlög til kvikmyndamenningar á Íslandi og ég nefni þar til að mynda kvikmyndahátíðir og kvikmyndahús, framlög til endurnýjunar eldri kvikmynda sem er mjög mikilvægur hluti menningararfsins, þ.e. hvernig við komum honum á stafrænt form, og fleiri þættir. Einn af þeim er kvikmyndamenntun sem niðurstaðan varð úr að við settum á laggirnar sérstakan starfshóp um stefnumótun í kvikmyndamenntun á Íslandi. Það er því margt undir þegar við ræðum um þessi mál.

Hv. þingmaður og málshefjandi nefndi líka sérstaklega skýrslu sem unnin var að frumkvæði hinna skapandi greina, eða listgreinanna eftir því hvort við notum skrauthvörfin eða ekki, og var unnin í góðri samvinnu ýmissa ráðuneyta og geirans um hagræn áhrif skapandi greina. Niðurstöður þeirrar skýrslu voru mjög merkilegar og voru þær að hinar skapandi greinar eða listirnar veltu, þegar allt var tekið með í reikninginn, um það bil sömu fjárhæðum og þungaiðnaðurinn eða áliðnaðurinn á Íslandi. Þetta kom auðvitað mörgum á óvart. Í framhaldi af því var settur starfshópur til að móta tillögur — ég veit að þær tillögur liggja fyrir í lokadrögum núna og verða vonandi kynntar á næstunni — sem snúa að því hvernig við eigum að hlúa að uppbyggingu listgreina eða skapandi greina sem atvinnuvegar.

Hv. þingmaður nefndi að þetta snerist ekki eingöngu um atvinnugrein heldur líka sálina í samfélaginu og ég get tekið undir það. Mér finnst þetta vera tvíþætt mál. Við eigum auðvitað að horfa á listir og menningu sem ákveðna nauðsyn fyrir okkar samfélag, hvort sem það eru bókmenntir, kvikmyndir, tónlist eða hvert við lítum, þá má segja og það er mín skoðun að samfélög séu dæmd út frá framlagi sínu til menningar í sinni víðtækustu skilgreiningu en ekki endilega út frá efnahagslegum stórvirkjum eða öðru slíku. Ég held að samfélög séu dæmd út frá þessu og þess vegna skiptir þetta að sjálfsögðu okkur öll máli óháð hinum hagrænu áhrifum. En þegar þau bætast við höfum við auðvitað mjög merkar niðurstöður sem sýna að fullar forsendur eru fyrir mjög fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu á þessu sviði, ekki síst í kvikmyndagerðinni.

Í kjölfar þeirrar stefnumótunar sem unnin var um kvikmyndagerðina sérstaklega náðu mennta- og menningarmálaráðuneytið og fagfélög á sviði kvikmyndagerðar samkomulagi um framhaldið. Ég vil nefna að það var auðvitað gert samkomulag í tíð fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem miðaði að ákveðinni stigvaxandi aukningu framlaga í Kvikmyndasjóð. Við byggðum þetta samkomulag á svipuðum forsendum en bættum inn fleiri þáttum. Við sjáum því nú fram á að sett hefur verið niður samkomulag sem gerir ráð fyrir aukningu til Kvikmyndasjóðs. Síðan má ekki gleyma því að hér hefur verið í gangi stuðningskerfi á vegum iðnaðarráðuneytisins sem miðar við endurgreiðslu til framleiddra kvikmynda. Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga af því að þar hefur kannski birst sú gróska sem hefur verið í kvikmyndagerð á undanförnum árum. Endurgreiðslur árið 2011 voru 687 millj. kr. og þar af 471 millj. kr. vegna íslenskra kvikmynda en 216 millj. kr. vegna erlendra kvikmynda. Þær voru upphaflega hugsaðar kannski fyrst og fremst til að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn en hafa að sjálfsögðu nýst íslenskri kvikmyndagerð og það er jákvætt.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að við náum upp framlögum í Kvikmyndasjóð úr ríflega 500 millj. kr. árinu 2012 í 700 millj. kr. á fjórum árum. Ég held líka að gott sé að hafa það í huga og ég ætla að hafa það lokaorð mín að ég tel að þessir peningar sem við setjum inn í formi styrkja til kvikmyndagerðar í gegnum Kvikmyndasjóð sem byggir úthlutanir sínar á faglegu mati, skili sér í störfum, eins og hefur verið sýnt fram á, og ýmsum áhrifum á samfélagið allt. Ég tel því að þessum fjármunum sé vel varið.