140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir að vekja athygli á málefnum kvikmyndalistarinnar. Það væri nú óskandi að ríkisstjórnarflokkarnir hlustuðu betur, með fullri virðingu fyrir okkur hinum, á þann sem hefur mesta sérþekkingu á því sviði innan þessara veggja.

Það er líka ánægjulegt, frú forseti, að fylgjast með velgengni íslensks kvikmyndagerðarfólks. Það er búið að tala um Contraband Baltasars Kormáks og ýmsir fleiri Íslendingar eru þar innan borðs — Elísabet Ronaldsdóttir, Ólafur Darri, handritshöfundarnir og fleiri sem koma að þessu.

Við vitum líka að innan tíðar á að fara að frumsýna Svartur á leik í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar, að mig minnir. Þetta er ekki tilviljun, það er ýmislegt í farvatninu og ýmislegt að gerast á sviði kvikmyndagerðar. Markvisst hefur verið unnið að því af hálfu kvikmyndagerðarfólks að byggja upp raunhæft skipulag til lengri tíma. Það hefur sýnt ótrúlega mikla þolinmæði við að fá stjórnvöld nú og áður til að skilja um hvaða hagsmuni er að ræða, og þá ekki bara hina hagrænu hagsmuni heldur ekki síður þau áhrif sem þetta hefur á líf og sál þjóðarlíkamans.

Tækifærin eru til staðar. Það tók ákveðinn tíma að byggja þetta upp, að ná eyrum stjórnvalda og skilningi, að efla Kvikmyndasjóðinn, styrkja Kvikmyndamiðstöðina, kynningarmálin, passa upp á Kvikmyndasafnið, tala um endurgreiðslur til kvikmynda og síðast en ekki síst Kvikmyndaskólann. Það er sárt að horfa upp á að til lengri tíma hefur verið unnið markvisst en síðan hefur alltaf verið kroppað í þetta. Óvissan hefur að mínu mati verið allt of mikil. Vil ég þá sérstaklega draga hér fram Kvikmyndskólann. Það verður að sýna fram á að menn hafi metnað til þess að starfrækja hér ákveðnar undirstöður á sviði menntunar er tengjast kvikmyndagerð.

Ég vil líka draga fram jákvæðu hlutina sem eru endurgreiðslurnar, að þær hafi verið auknar, ég held að það sé afar mikilvægt. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin sjái að skattalegir hvatir verða til að styrkja atvinnulífið, í þessu tilviki kvikmyndagerðina, áfram.

Við í stjórnarandstöðunni munum að sjálfsögðu fylgjast með þessu máli og halda ríkisstjórninni við efnið. Það er að mínu mati mjög skrýtið hve hún hefur gengið hart að, (Forseti hringir.) allt að því gengið nærri, þeirri listgrein sem kvikmyndagerðin er. (Forseti hringir.) Það er sérstaklega skrýtið í ljósi ákallsins í samfélaginu um fjölbreytni í (Forseti hringir.) atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar.